Viðskipti innlent

Segir breytingarnar hafa alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarútveginn

Höskuldur Kári Schram skrifar
Framkvæmdastjóri LÍÚ segir að sú hækkun veiðigjalds sem er boðuð í kvótafrumvarpinu muni hafa alvarlegar afleiðngar fyrir mörg útgerðarfyrirtæki og leiða til minni hagnaðar og meiri tilkostnaðar. Útgerðarmenn funduðu með sjávarútvegsráðherra vegna kvótafrumvarpsinss í gær.

„Okkur líst ekki vel á það sem við höfum séð. Þarna er um gríðarlega skattlagningu að ræða. Þarna er verið að taka um 70 prósent af hagnaði, metnum hagnaði, útgerðar og fiskvinnslu og við sjáum það einfaldlega ekki ganga í gegn," segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ.

Útgerðarfyrirtækin séu mörg hver skuldsett og ráði ekki við þessar hækkanir. „Við sjáum alvarleg áhrif á mjög mörg fyrirtæki og mörg þeirra eru ekki að komast í gegnum þetta. Bara venjuleg eðilega rekin fyrirtæki. Þau munu ekki eiga fyrir afborgunum hvað þá endurnýjun eða einhverri framþróun. Auðvitað förum við í gegnum þetta á næstu dögum og vikum og gerum það mjög nákvmælega og förum svo yfir það með stjórnvöldum," segir Friðrik.

Frumvarpið tryggi ekki nýliðun og muni hafa slæm áhrif á greinina. „Það verður þannig að við verðum með miklu verri sjávarútveg. minni tekjur, meiri tilkostnað og á endanum hefur þetta mikil áhrif á lífskjör okkar allra," segir Friðrik.

Sjálfstæðismenn ætla að óbreyttu ekki að styðja frumvarpið. Framsóknarmenn segja að frumvarpið sé skref í rétta átt en gera meðal annars athugasemdir við útfærslu á potti tvö og hækkun veiðigjalds.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×