Viðskipti innlent

Vilja að lífeyrissjóðir íhugi málsókn

Stefán Einar Stefánsson, er formaður VR.
Stefán Einar Stefánsson, er formaður VR.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna og aðrir lífeyrissjóðir ættu að íhuga málsókn á hendur þeim sem voru hugsanlega aðilar að rangri upplýsingagjöf til hluthafa, eigenda skuldabréfa og annarra hagsmunaaðila í aðdraganda efnahagshrunsins. Það er álit ráðgjafanefndar VR um skýrslu Landssamtaka lífeyrissjóða.

Í niðurstöðu kafla í skýrslu sem ráðgjafanefndin vann segir að þeir sem slík málsókn beinist hugsanlega gegn séu stjórnendur banka og fyrirtækja, svo og kjörnir endurskoðendur þessara fyrirtækja. „Þangað kann hugsanlega að vera eitthvað að sækja vegna starfsábyrgðartrygginga stjórnarmanna, stjórnenda og endurskoðenda. Það má setja út á að lífeyrissjóðir hafi ekki haft frumkvæði eða sýnt slíkum málsóknum áhuga."

Nefndin segir það ekki sæta undrun að íslenskir lífeyrissjóðir töpuðu 400 til 500 milljörðum þegar horft er til heildataps bankanna þegar upp var staðið. Þá segir nefndin að neyðarlögin hafi heldur skaðað lífeyrissjóðina en hitt, þar sem skuldabréf banka voru áfram almenn krafa í þrotabú þeirra en innlán voru gerð að forgangskröfu.

Í ráðgjafanefnd VR sátu Vilhjálmur Bjarnason, lektor við HÍ, Kristján Torfason, fyrrum dómstjóri Héraðsdóms Suðurlands og Róbert H. Haraldsson, prófessor við HÍ. Nefndinni var einkum ætlað að fjalla um þær niðurstöður sem varða starfsemi Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.

Hægt er að lesa skýrslu nefndarinnar í meðfylgjandi skjali, hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×