Viðskipti innlent

Gjaldeyrisskuld þrotabúa bankanna nemur 530 milljörðum

Hrein gjaldeyrisskuld þrotabúa gömlu bankanna þriggja nemur um 530 milljarðar króna eða sem nemur 32 prósentum af landsframleiðslu Íslands.

Þessi staðreynd lá m.a. til grundvallar lagasetningunni um herðingu á gjaldeyrishöftunum að því er segir á vefsíðu stjórnarráðsins. Útstreymi á þessu fé úr landinu hefði verulega veikt gengi krónunnar en þetta fé bíður þess að verða ráðstafað til erlendra kröfuhafa.

Nær allir kröfuhafar Landsbanka Íslands eru erlendir en um 80 prósent krafna í þrotabú Glitnis og Kaupþings eru erlendar.

Þá segir að upplýsingar liggi fyrir um að erlendir aðilar hafi stóraukið kaup á jafngreiðslubréfum Íbúðalánasjóðs í þeim tilgangi að nýta sér þessa heimild til að taka út gjaldeyri í krafti hennar.

Greiðslur af höfuðstól og verðbætur í svonefndum HFF14 flokki skuldabréfa Íbúðalánasjóðs geta numið allt að 42 milljörðum króna fram til loka gjalddaga í september 2014. Til samanburðar má geta þess að heildarvelta á innlendum gjaldeyrismarkaði á árinu 2011 nam um 77 milljörðum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×