Viðskipti innlent

Mikil fjölgun farþega hjá Icelandair til og frá Kaupmannahöfn

Farþegum Icelandair til og frá Kaupmannahöfn fjölgaði um 24 þúsund á síðasta ári. Félagið hefur aukið markaðshlutdeild sína á flugleiðinni milli dönsku höfuðborgarinnar og Keflavíkur töluvert síðustu ár á kostnað Iceland Express. Á síðasta ári voru farþegar íslenska félagsins, á þessari flugleið, 273 þúsund talsins.

Þetta kemur fram á vefsíðunni túristi.is. Þar segir að 72 prósent þeirra sem ferðast milli Kaupmannahafnar og Keflavíkur fá far með Icelandair

Aðeins ellefu flugfélög flytja fleiri farþega til og frá Kaupmannahafnarflugvelli en Icelandair gerir. Aukningin á milli síðustu tveggja ára nemur tæplega 10% samkvæmt tölum danska ferðablaðsins Stand by yfir umsvifamestu fyrirtækin á stærsta flugvelli Danmerkur.

Farþegafjöldi Icelandair jafngildir því að einn af hverjum hundrað farþegum sem fer um Kastrup er á vegum félagsins.

SAS er langstærsta félagið í Kaupmannahöfn því fjórir af hverjum tíu farþegum á flugvellinum eiga pantað far með því. Lággjaldaflugfélögin Norwegian og Cimber Sterling koma í næstu sætum. Alls eru fyrirtækin um sextíu talsins sem halda uppi millilandsflugi frá höfuðborg Danmerkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×