Viðskipti innlent

Spáir 16% hækkun á íbúðaverði fram til ársloka 2013

Greining Íslandsbanka spáir áframhaldandi verðhækkun á íbúðarhúsnæði og að íbúðaverð muni hækka um 16% að nafnverði yfir þetta og næsta ár.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að miðað við verðbólguspá greiningarinnar þýði þetta 8,5% raunverðshækkun yfir þetta tveggja ára tímabil. Greiningin spáir 8% nafnverðshækkun yfir árið í ár og einnig 8% yfir næsta ár.

Fram kemur að helsti drifkraftur íbúðaverðshækkunar er áframhaldandi bati í efnahagslífinu, sögulega lágir vextir, vaxandi kaupmáttur ráðstöfunartekna, fjölgun starfa og minnkandi atvinnuleysi, aukið aðgengi að lánsfjármagni, hjöðnun verðbólgunnar, ríflegar launahækkanir og minni óvissa um skuldastöðu heimilanna.

„Spáin hvílir á því að hagkerfið vaxi hóflega á þessu og næsta ári, eða á milli 2-2,5% hvort árið og nægjanlega hratt til að vinda að hluta ofan af þeim slaka og ójafnvægi sem nú er til staðar í hagkerfinu," segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×