Viðskipti innlent

Iceland Express flýgur til Kölnar

Iceland Express ætlar að hefja áætlunarflug til Köln í vesturhluta Þýskalands í júní en flogið verður tvisvar í viku. Í tilkynningu segir Skarphéðinn Berg Steinarsson, forstjóri Iceland Express, það vera ánægjulegt að bæta Köln við metnaðarfulla sumaráætlun félagsins og auðvelda þar með fleiri Þjóðverjum að heimsækja Ísland og auka um leið ferðamöguleika Íslendinga í Þýskalandi.

„Við bjóðum Iceland Express hjartanlega velkomið á Köl-Bonn flugvöll," segir Michael Garvens, stjórnarformaður flugvallarins í tilkynningu. „Og við er stolt af því að geta bætt elsta lággjaldaflugfélagi Íslands í hóp örtfjölgandi alþjóðlegra flugfélaga sem fljúga á Köln-Bonn flugvöll."

Í tilkynningunni segir að Köln sé annar stærsti áætlunarflugvöllur lággjaldaflugfélaga í Þýskalandi en þar fara m 4,2 milljónir farþega á ári. „ Iceland Express er annað stærsta fyrirtækið í ferðaþjónustu á Íslandi og á síðasta ári flutti félagið 21 prósent fleiri farþega en á árinu 2010. Góð aukning hefur verið á farþegum í vetur og bókanir fyrir sumarið benda til þess að enn eitt metið verði slegið í farþegaflutningum á þessu ári, enda er almennt reiknað með að ferðamönnum til landsins muni fjölga um allt að 18 prósent."

„Flugvöllurinn í Köln er vel tengdur við miðborgina en það tekur aðeins um 12 mínútur að fara með hraðlest frá flugvellinum inn í miðborg. Þá hentar flugvöllurinn vel til tengiflugs en þaðan er flogið á 115 áfangastaði víðs vegar um heiminn.

Fyrsta flugið Iceland Express verður þriðjudaginn 5. júní og síðasta flug sumarins hinn 31. ágúst. Flogið er frá Keflavík kl. 17:50 og lent í Köln klukkan 21:20, þaðan sem flogið er til baka til Keflavíkur kl. 00:30 þar sem lent er kl. 02:25," segir ennfremur í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×