Viðskipti innlent

Vilja aðskilja fjárfestingabanka og viðskiptabanka

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Álfheiður Ingadóttir er fyrsti flutningsmaðurinn að tillögunni.
Álfheiður Ingadóttir er fyrsti flutningsmaðurinn að tillögunni. mynd/ valli.
Þingmenn úr fjórum þingflokkum á Alþingi vilja að skipuð verði nefnd til að endurskoða skipan bankastarfsemi á landinu með það að markmiði að aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingabanka. Markmiðið er að lágmarka áhættuna af áföllum í rekstri banka fyrir þjóðarbúið. Samkvæmt þingsályktunartillögu á nefndin að skila tillögum sínum fyrir 1. október 2012.

Í greinargerð með tillögunni segir að frá bankahruni 2008 hafi mikil og gagnrýnin umræða farið fram um starfsaðferðir bankanna í aðdraganda þess að þeir urðu gjaldþrota. Ekki síður hafi verið fjallað um þann lagaramma sem þeir störfuðu eftir og gerði þeim kleift að ráðast í áhættusamar fjárfestingar. Að því hefur einkum verið fundið að innlán viðskiptabanka sem höfðu bakábyrgð frá ríkinu skuli ekki aðeins hafa nýtt innlán frá einstaklingum og smærri fyrirtækjum í hefðbundin útlán, heldur einnig reynt að ávaxta umrætt fé með glæfralegum og jafnvel óarðbærum fjárfestingum, m.a. í fyrirtækjum sem voru nátengd eigendum þessara sömu fjármálastofnana.

Þá segja þingmennirnir að vegna þess að innlán njóti sérstakrar verndar og tryggingar sé rík ástæða til að aðskilja slíka starfsemi frá áhættusækinni fjárfestingarstarfsemi. Með því að sinna bæði viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi í einu hafi bankarnir verið í aðstöðu til að misnota auðvelt aðgengi sitt að fé viðskiptavina sinna með því að verja því í áhættusamar fjárfestingar.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, er fyrsti flutningsmaðurinn að tillögunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×