Viðskipti innlent

Hátt í 200 fengu aðstoð frá Lögréttu

JMG skrifar
Hátt í tvö hundruð manns fengu aðstoð við skattframtalið sitt í dag hjá hjálpsömum lögfræðinemum. Meirihluti þeirra sem þurftu aðstoð var útlendingar. Það kvíða margir fyrir að opna skattframtalið og færa inn fjárhagsbókhald heimilisins fyrir síðasta ár, og þó svo að mikið af upplýsingum komi sjálfkrafa inn þá er ýmislegt sem getur vafist fyrir fólki. Það var því fullt út úr dyrum hjá Háskólanum í Reykjavík í dag þegar Lögrétta, félag lögfræðinema við Háskólann í Reykjavík buðu upp á endurgjaldslausa aðstoð við skattframtalið.

„Það hefur gengið rosalega vel, gengið hratt fyrir sig og við náð að aðstoða fleiri en við hefðum nokkurntíma óskað," segja stelpurnar. Þær segja marga vera óörugga að skila skattframtalinu sjálft og aðra þurfa aðstoð til dæmis vegna kaupa á eignum eða við að færa inn skuldir. „Þetta er mikið bara óöryggi og eðlilega. Þetta er flókið fyrir þá sem hafa ekki séð þetta áður," segja þær Sigríður Marta Harðardóttir og Sif Steingrímsdóttir hjá lögfræðiþjónustu Lögréttu. Stelpurnar segja að það séu aðallega útlendingar og fólk sem hefur aldrei skilað skattskýrslu á íslandi áður.

Almennur skilafrestur á skattframtölum er á fimmtudaginn og náðu margir að klára framtalið með aðstoð laganemanna í dag. Stelpurnar segja að Lögrétta sé í samstarfi við KPMG, Reykjavíkurborg og Arion Banka. Það séu því sérfræðingar á staðnum sem aðstoði og séu með svör við öllum spurningum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×