Viðskipti innlent

Steinþór ekki hálfdrættingur á við Höskuld

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það lætur nærri að Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, hafi verið með þrefalt hærri mánaðarlaun á síðasta ári en Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans. Samkvæmt ársreikningi Arion banka fyrir síðasta ár voru heildarlaun Höskuldar 37,1 milljón króna. Það er að meðaltali 3,1 milljón á mánuði. Samkvæmt nýbirtum ársreikningi Landsbankans voru heildarlaun Steinþórs á síðasta ári aftur á móti 13,9 milljónir króna, sem gerir tæplega 1,2 milljónir á mánuði.

Mánaðarlaun Höskuldar voru því 1,9 milljónum eða 158% hærri en laun Steinþórs. Þetta þýðir að stjórn Landsbankans þyrfti að tvöfalda laun Steinþórs og bæta við um 700 þúsund krónum ef stjórnin hyggðist jafna laun Steinþórs á við laun Höskuldar.

Í ársreikningnum segir stjórn Landsbankans að sú staðreynd að kjararáð ákveði laun bankastjórans en ekki stjórn bankans sé einn af þeim áhættuþáttum sem bankinn standi frammi fyrir. Laun Steinþórs séu ekki samkeppnishæf á markaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×