Viðskipti innlent

FME: Gengisdómur ógnar ekki fjármálastöðugleikanum

Fjármálaeftirlitið (FME) telur að nýjasti gengislánadómur Hæstaréttar ógni ekki fjármálastöðugleika landsins.

Fjallað er um málið á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins. Þar segir að þegar nýjasti dómur Hæstaréttar lá fyrir í febrúar s.l. taldi eftirlitið að niðurstaða dómsins myndi ekki ógna fjármálastöðugleikanum.

Samt sem áður hóf eftirlitið þegar vinnu við að meta áhrif dómsins á fjárhagsstöðu einstakra fjármálafyrirtækja og kerfisins í heild með því að gera lánastofnunum að endurreikna lánin og skila niðurstöðum 15. mars s.l. Endurreikningnum er ætlað að leiða í ljós hvaða áhrif dómurinn hefur á bókfært virði útlánasafna lánastofnana miðað við nokkrar sviðsmyndir.

Nú er unnið að því að yfirfara svör lánastofnana, samhæfa upplýsingar og reikna út heildaráhrif dómsins á bankakerfið. Áætlað er að þeirri vinnu ljúki síðar í mánuðinum. Þær upplýsingar sem nú liggja fyrir breyta hinsvegar ekki upphaflegu mati Fjármálaeftirlitsins, að því er segir á vefsíðu þess.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×