Handbolti

Alfreð þjálfari ársins í Þýskalandi í þriðja sinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel. Nordic Photos / Getty Images
Lesendur þýska tímaritsins Handball-Magazin hafa valið Alfreð Gíslason, þjálfara Kiel, sem þjálfara ársins í þýska handboltanum. Dagur Sigurðsson var þriðji í valinu.

Alfreð hlaut yfirburðakosningu eða 842 stig. Næstur kom Martin Schwalb, fyrrum þjálfari Hamburg, með 582 stig. Dagur var svo með 569 stig en hann hefur náð góðum árangri með Füchse Berlin. Schwalb gerði Hamburg að Þýskalandsmeisturum í fyrra.

Kiel hefur spilað frábærlega á tímabilinu og er enn með fullt hús stiga. Er það vitanlega met. Liðið varð bikarmeistari í fyrra en missti af þýska meistaratitlinum sem og Evrópumeistaratitilinum. Hann hefur tvívegis áður orðið hlutskarpastur í þessu vali, 2001 og 2009.

„Þetta er mesta hrós sem ég get fengið,“ sagði Alfreð í samtali við Handball-Magazin. „Þetta kemur líka örlítið á óvart. Þetta var erfitt ár og valið fer alltaf saman með titlum sem liðið hefur unnið.“

Aðeins tveir þjálfarar hafa oftar hlotið útnefninguna - Heiner Brand (sjö sinnum) og Horste Bredemeier (fjórum sinnum).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×