Lífið

Gott að vera vitur eftir á

Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já.
Sigríður Margrét Oddsdóttir var óþolandi metnaðar­fullur nemandi sem ætlaði sér alla tíð stóra hluti. Hún hefur gaman að því að vinna og er í dag forstjóri Já. Fyrirtækið hefur verið mikið í umræðunni undanfarið eftir að það hlaut viðurkenningu FKA og tók þá ákvörðun um að prenta límmiða til að líma yfir Egil „Gillz" Einarsson. Sigríður ræddi málin við Lífið.



Þú ert prestsdóttir, alin upp úti á landi. Hvernig upplifun var það og hvernig voru uppvaxtarárin?

„Ég fæddist í Reykjavík og er elst fjögurra systkina, ég flutti fimm ára gömul til Skagastrandar þar sem faðir minn starfaði sem prestur (þessi hávaxni ljóshærði með yfirvaraskeggið sem hélt messuna á útisviðinu í Kúrekar norðursins). Hallbjörn Hjartarson var meðhjálpari í kirkjunni og árin á Skagaströnd eru mér ógleymanleg.

Þegar ég var tíu ára flutti fjöl­skyldan svo til Njarð­víkur, þar tóku þrjár yndis­legar stelpur mér fagnandi sem eru mínar bestu vinkonur enn í dag. Í Njarðvík lærði ég á fiðlu og sökkti mér í námið, var þessi óþolandi samvisku­sami nemandi sem þurfti endilega að minna kennarann á það ef hann gleymdi að hann hefði ætlað að halda próf. Tíminn leið ótrúlega hratt og ég var komin í framhaldsskóla ári á undan áætlun, valdi Verzlunarskóla Íslands og sé svo sannarlega ekki eftir því.

Árin í Verzló voru frábær og ég ákvað svo að skella mér í háskóla­nám á Akureyri, þar var nefnilega boðið upp á þriggja ára B.Sc.-nám með áherslu á markaðsfræði. Akureyri er einhver fallegasti bær á landinu og fólkið sem býr þar er einstakt. Mér leið strax vel þar.

Maðurinn minn er frá Akureyri og þar eignuðumst við syni okkar tvo. Þegar ég fékk svo tækifæri til þess að búa til „Já" í samstarfi við öflugan hóp fólks þá ákváðum við að flytja til Reykjavíkur. Síðan þá hefur ýmislegt á daga okkar drifið."

Var lagt mikið upp úr menntun og metnaði í uppeldi þínu?

„Móðir mín var heimavinnandi með okkur fjögur systkinin lengst af og hún lagði ákaflega mikla áherslu á menntun og metnað og við búum öll vel að því. Sjálf fór hún ekki í háskóla þegar hún var ung og vildi því tryggja það að við færum öll í skóla og það tókst hjá henni."

Hvert stefndir þú í framtíðinni þegar þú varst yngri?

„Þegar við systkinin vorum að alast upp þá var okkur oft sagt að við gætum gert allt sem okkur langaði til, svo lengi sem við værum tilbúin til að leggja það á okkur að vinna fyrir því. Ég hef alltaf haft mikinn metnað fyrir því sem ég er að gera hverju sinni og hef gaman að því að vinna. Ég áttaði mig fljótlega á því að hæfileikar mínir og styrkleikar liggja á viðskiptasviðinu og ég hef gaman af samskiptum við annað fólk. Það má því segja að ég sé í draumastarfinu mínu núna."

Hvernig tilfinning er það að vera ung kona í ábyrgðarmiklu starfi? Hefurðu þurft að hafa mikið fyrir þínu og hefurðu á einhvern hátt upplifað fordóma?

„Velgengni er bland af því að vinna verkin sín vel, hafa auga fyrir tækifærum og njóta stuðnings góðs fólks. Ég hef þurft að sanna mig í starfi til þess að komast áfram og það vill þannig til að ég væri ekki þar sem ég er í dag, nema einmitt af því að konur hafa gefið mér tækifæri og það finnst mér sérlega skemmtilegt. Á öllum þeim árum sem ég hef starfað í íslensku viðskiptalífi þá hef ég bara einu sinni upplifað fordóma vegna þess að ég er kona, það gerðist núna um daginn þegar bæjarstjóri og forseti bæjarráðs á Akureyri sögðu að Já ætti ekki skilið viðurkenningu frá konum af því að fyrirtækinu væri stjórnað af konum sem hefðu sagt upp konum.

Það vita allir sem stýra fyrir­tækjum að ákvörðun um slíkar breytingar og uppsagnir er aldrei tekin nema að vel ígrunduðu máli. Forseti bæjarráðs hefur einmitt verið í fjölmiðlum undan­farið að verja ráðningu sína á fyrr­verandi forstjóra Saga Capital í starf framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar. Saga Capital tilkynnti í maí 2011 að starfsemi bankans yrði flutt frá Akureyri – í sama mánuði og Já tilkynnti um lokun þjónustuvers á Akureyri.

Tugir starfa höfðu því tapast á Akur­­eyri frá því að umfang Saga Capital var sem mest, rekstur bankans gekk illa. For­svars­mönnum Akur­eyrar­bæjar fannst ekkert óeðli­legt við að veita fyrrverandi forstjóra Saga Capital „viðurkenningu" með mikilvægri stöðu, en töldu hins vegar Félag kvenna í atvinnurekstri (FKA) hafa gert mistök með því að veita Já viðurkenningu fyrir að virkja krafta kvenna við stjórnun.

Annar þeirra mætti í sjónvarpsviðtal og hinn skrifaði grein um „gengis­fellingu FKA" fyrir að veita Já viðurkenninguna. Rök þeirra voru þau að félagið hafi gripið til hagræðingaraðgerða þar sem störf á Akureyri hafi tapast. Eftir stendur að Já er vel rekið fyrirtæki, stjórnað af konum, sem veitir 124 starfsmönnum vinnu, þar af eru 90 prósent konur. Af þessari umfjöllun má í besta falli draga þá ályktun að þessir menn hafi sýnt tvískinnung, en í versta falli má draga þá ályktun að viðhorf þeirra séu þau að verk kvenstjórnenda skuli meta með allt öðrum hætti en verk karlstjórnenda. Ég vona að hið fyrrnefnda eigi við."

Hvernig upplifir þú konur al­mennt í atvinnulífinu?

„Mér finnast þær konur sem eru í forystu í atvinnulífinu vera bæði sterkar og aðdáunarverðar, ég hvet konur til þess að bæði sækjast eftir frama í viðskiptum og taka þátt í umræðu um viðskipti á opinberum vettvangi. Konur eiga mikilvægt erindi í íslensku viðskiptalífi."

Hvernig reynsla var það að reka einkafjölmiðil í miðju hruni?

„Starfið mitt fyrir SkjáEinn var bæði það skemmtilegasta og eitt það erfiðasta sem ég hef tekist á við. Fyrsta árið fór í að taka til í rekstrinum og átta sig á nýrri atvinnugrein, þegar því var lokið þá hrundi bæði auglýsinga­markaðurinn og gengi íslensku krónunnar, allar forsendur fyrir SkjáEinum brustu. Það er ástríðu og metnaði starfsfólksins að þakka að þessi valkostur er enn í boði í dag. Ég vona innilega að einkareknir fjölmiðlar nái að dafna inn í framtíðina á Íslandi, ég veit hvað rekstrarumhverfi þeirra er erfitt.

Undanfarið hefur verið fjallað um nýtt frumvarp sem snýr að RÚV, og af því sem ég hef heyrt þá hef ég litla trú á því að það hafi áhrif á stöðu RÚV á auglýsingamarkaði. Takmörkun úr 12 mínútum á klukku­­stund niður í tíu mínútur á klukku­stund í sjón­varpi hefur engin áhrif þar sem aug­lýsinga­tímar eru sjaldan svona vel nýttir. Ég hef hins vegar veru­legar áhyggjur af því að ný lög leyfi RÚV að keppa á auglýsinga­markaði á Internetinu.

Það hefur verið mikil gróska í netmiðlum á Íslandi og verði frum­varpið að lögum mun það ógna þeirri þróun. Ég veit ekki til þess að nokkurt ríkisútvarp á Norður­löndunum selji auglýsingar á Internetinu. Ég vona helst að þetta séu mistök hjá þeim sem sömdu frumvarpið."

Það hefur gengið á ýmsu undanfarið hjá Já. Fyrst viðurkenning FKA – sem margir voru ósammála þar sem þið þurftuð að segja upp konum og svo stóra Gillz-málið. Hver er afstaða þín í þessum málum?

„Við vorum þakklát að fá viðurkenningu frá Félagi kvenna í atvinnurekstri, töldum það viðurkenningu á góðum árangri í rekstri og því að konur hefðu haft hugrekki til þess að taka þátt í kaupum á fyrirtæki en það snerist heldur betur upp í andhverfu sína þegar bæjarstjórinn og forseti bæjarráðs á Akureyri tóku það upp hjá sjálfum sér að vekja athygli á því að við hefðum þurft að taka erfiðar ákvarðanir í rekstrinum og ættum því ekki viðurkenninguna skilið.

Ég tengi Gillz-málið ekki við FKA-viðurkenninguna, það er alveg sér kafli. Varðandi samstarfið við Egil „Gillz" Einarsson á síðasta ári þá lögðum við af stað í það verkefni með gott eitt að leiðarljósi. Við vildum sýna að við hefðum húmor og við vildum leggja áherslu á heilbrigðan lífsstíl.

Á þeim tíma byggðum við ákvörðun um sam­starfið á tvennu, annars vegar á reynslu okkar frá 2006 þegar Egill lék fyrir okkur í sjón­varps­aug­lýsingu fyrir Gulu síðurnar og tókst vel til og hins vegar á rann­sóknum þar sem við könnuðum við­horf fólks til sam­starfsins og því við hvað fólk tengdi Egil. Hann var þá helst tengdur við orð eins og „athygli" – „íþróttir" og „fyndinn". Tvöfalt fleiri voru mjög hlynntir sam­starfi okkar við hann en andvígir. Síðar fer af stað þessi mikla atburðarrás og í ljósi hennar held ég að þú finnir varla Íslending sem telji þetta samstarf ekki hafa verið mistök. Það er augljóst. Fyrirmyndir í dægurmenningu okkar þurfa einfaldlega að vera til fyrirmyndar og þá er ég ekki að tala um hvort hann verður ákærður eða ekki. "

Ákvörðun ykkar um að prenta límmiða til þess að líma yfir Gillz á símaskránni lagðist í flestum tilfellum illa í landsmenn. Var sú ákvörðun mögulega röng?

„Við hefðum ekki átt að láta prenta þá. Við tókum ákvörðun um það í desember á síðasta ári þegar bloggheimarnir loguðu og sumir voru farnir að hóta símaskrárbrennum á opinberum vettvangi. Við settum þá aldrei í dreifingu heldur fóru þeir inn í skáp. Það var einfaldlega okkar mat eftir að hafa gaumgæft málið betur að lím­miðarnir ættu nákvæmlega ekkert erindi inn í þessa umræðu, þvert á móti sendu þeir alls kyns skrítin skilaboð. Þar með héldum við að málinu væri lokið.

Mánuði síðar fengum við svo símtal frá Fréttablaðinu sem hafði haft spurnir af því að við hefðum látið útbúa þá og fjallaði í kjöl­farið um málið. Það var mjög áhugavert að fylgjast með sér­fræðingunum tjá sig í fjölmiðlum dagana á eftir, þeir héldu greinilega að þetta hefði verið einhvers konar PR-uppátæki hjá okkur, að prenta límmiða og leka því í Fréttablaðið, sem það var alls ekki."

Voruð þið með þessu athæfi ykkar að leggja ykkar dóm á Gillz eins og margir vilja meina?

„Nei, alls ekki."

Hugsaðir þú um að segja starfi þínu lausu eftir fárið sem skapaðist í kringum þetta mál?

„Nei. Við tókum ákvörðun um samstarfið á sínum tíma út frá ákveðnum forsendum eins og fyrr segir. Síðan hafa átt sér stað atburðir sem gjörbreyttu þessum forsendum svo ekki sé sterkara að orði kveðið. Við sáum að sjálfsögðu ekki þessa atburðarás fyrir. Það er auðvelt að vera vitur eftir á."

Hvernig upplifðirðu fjölmiðla í þessu máli?

„Fjölmiðlar spegla samtímann hverju sinni. Það er að verða mikil breyting á því hvernig við eigum samskipti, bæði hvert við annað og eins við fyrirtæki. Þó að fólki finnist stundum fjölmiðlar fara offari þá veita þeir mikil­vægt aðhald sem við getum ekki verið án. Oftast byggir gagnrýni í grunninn á málefnalegum for­sendum og þá eigum við sem erum í forsvari fyrir fyrirtækin að taka mark á henni og læra af henni."

Hvað er fram undan hjá Já?

„Fram undan eru skemmti­legir og spennandi tímar. Við höldum úti sex miðlum í dag en byrjuðum fyrir sjö árum með tvo. Við ætlum að leggja áherslu á að veita áfram góða þjónustu hjá 118 en á sama tíma ætlum við að sækja fram og kynna vel nýju miðlana okkar, bæði snjall­síma­forritið Já í símann, Stjörnur.is sem er umsagnar­vefur, sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi. Stjörnur hafa komið okkur skemmti­lega á óvart og nú þegar er hægt að finna á annað þúsund um­sagnir á vefnum, ég hvet alla til að skoða vefinn áður en þeir taka ákvörðun til dæmis um hvert á að fara út að borða.

Svo ætlum við að gera okkar besta til þess að auð­velda að­gengi erlendra ferða­manna að upp­lýsingum um öll íslensk fyrir­tæki með nýja vefnum okkar Iceland.ja.is og síðast en ekki síst ætlum við að endur­skoða aðal­vefinn okkar Já.is með tilliti til þeirra tækni­breytinga sem hafa átt sér stað undan­farið og við vitum að eru fram undan."

Hvað mun Já gera til að markað­­setja næstu Símaskrá?

„Við erum á fullu í undir­búningi með Borgar­leik­húsinu og það mun skýrast á næstu dögum hvað við ætlum að gera. Ég verð að segja að ég dáist að því hvernig þau hjá Borgar­leik­húsinu hafa nálgast þetta verkefni en þau ætla að taka alveg nýja stefnu. Þau lögðu af stað í sam­­starfið með gildin sam­­hygð, áhrif, sam­tal, þátt­taka og opna leik­húsið. Þau vilja varpa ljósinu á leik­list í heild sinni og áhrifum leik­hússins á áhorfendur, en ekki á Borgar­leik­húsið sem slíkt. Þau eru 100% með­vituð um það að þjóðin á Síma­skrána, en ekki Borgar­leik­húsið eða Já."

Eitthvað að lokum?

„Stílfærð tilvitnun úr Dúfnaveislunni eftir Halldór Laxness: Símaskráin er eina bókin þar sem merkilegar konur standa við hliðina á ómerkilegum konum. Jafnvel kona eins og ég stend þar. Þess vegna hallast ég að þeirri bók."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.