Viðskipti innlent

Gjaldeyrisútboð Seðlabankans á borð Umboðsmanns Alþingis

Róbert Guðfinnsson fjárfestir á Siglufirði hefur kvartað yfir gjaldeyrisútboði Seðlabankans til Umboðsmanns Alþingis þar sem hann telur sig ekki sitja við sama borð og lífeyrissjóðirnir í því.

Róbert telur að með samkomulagi því sem ríkissjóður hefur gert við lífeyrissjóðina í tengslum við útboðið sé sjóðunum gefið forskot á aðra sem ætla sér að taka þátt í útboðinu, þar á meðal hann. Slíkt er klár mismunun og getur vart staðist lög að mati Róberts.

Í svari Seðlabankans við fyrirspurn fréttastofu um málið segir að allir fjárfestar sitji við sama borð í sjálfu útboðinu. Seðlabankinn átti hinsvegar engan hlut að því samkomulagi sem ríkið og lífeyrissjóðirnir gerðu sín á milli.

Róbert auðgaðist á viðskiptum í Bandaríkjunum fyrir hrunið 2008. Hann hefur notað það fé til mikillar uppbyggingar á Siglufirði í gegnum félagið Rauðku. Um er að ræða umfangsmiklar framkvæmdir við smábátahöfnina þar sem hálfum milljarði króna hefur verið varið í að byggja upp veitingastað, kaffihús, gallerí og skemmtistað. Framhald verður á þessu verki og var það ástæða þess að Róbert ætlaði að taka þátt í útboði Seðlabankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×