Handbolti

AG bikarmeistari annað árið í röð | 16 íslensk mörk í úrslitaleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði átta mörk í úrslitaleiknum.
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði átta mörk í úrslitaleiknum. Mynd/Heimasíða AG
AG bikarmeistari varð í dag danskur bikarmeistari í handbolta eftir öruggan sex marka sigur á Aalborg, 32-26, í úrslitaleiknum. AG vann bikarinn líka í fyrra og hefur nú unnið fjóra titla í röð í dönskum handbolta.

Mikkel Hansen fór á kostum með AG og skoraði níu mörk þar af sex þeirra í seinni hálfleik. Guðjón Valur Sigurðsson var næstmarkahæstur með átta mörk og Ólafur Stefánsson skoraði fimm mörk þar af fjögur þeirra á upphafskafla leiksins.

Alls voru sextán marka AG-liðsins (50 prósent) íslensk því fyrirliðinn Arnór Atlason skoraði þrjú mörk. Snorri Steinn Guðjónsson komst ekki á blað í leiknum.

AG-liðið byrjaði leikinn af miklum krafti með Ólaf Stefánsson í fararbroddi. Ólafur skoraði fjögur af fyrstu sjö mörkum liðsins og AG komst í 2-0, 4-2 og 7-5.

Guðjón Valur Sigurðsson hrökk í gang í seinni hluta fyrri hálfleiksins og skoraði þrjú mörk á stuttum tíma þegar AG breytti stöðunni úr 10-8 í 14-9.

Arnór Atlason skoraði síðan lokamark fyrri hálfleiksins en AG var 15-11 yfir í hálfleik. Íslensku strákarnir höfðu skorað 9 af mörkum liðsins fyrir hlé.

Mikkel Hansen skoraði fyrsta mark seinni hálfleiksins en Álaborgarliðið svaraði með því að skora fjögur mörk i röð og minnka munin í eitt mark, 16-15.

Álaborgarliðið réð ekkert við Mikkel í seinni hálfleiknum og var danski Evrópumeistarinn búinn að skora sex mörk í hálfleiknum þegar hann var hálfnaður.

AG breytti stöðunni úr 18-17 í 26-18 og eftir það var sigurinn aldrei í hættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×