Handbolti

Danir komnir í úrslitaleikinn á EM - unnu Spánverja 25-24

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Danir eru komnir í úrslitaleik á öðru stórmótinu í röð eftir eins marks sigur á Spánverjum, 25-24, í fyrri undanúrslitaleiknum á Evrópumótinu í Serbíu. Danir töpuðu fyrir Frökkum í úrslitaleiknum á HM í Svíþjóð í fyrra en mæta annaðhvort Serbum eða Króötum í úrslitleiknum á sunnudaginn.

Mikkel Hansen skoraði sigurmark Dana 50 sekúndum fyrir leikslok en hann var með 4 mörk og fjölda stoðsendinga í leiknum. Rasmus Lauge Schmidt skoraði 6 mörk fyrir Dani og Rene Toft Hansen var með 4 mörk. Niklas Landin var líka öflugur í danska markinu en mótshaldarar voru sparir á vörðu skotin. Julen Aguinagalde var markhæstur hjá Spánverjum með 5 mörk.

Spánverjar byrjuðu vel og virtust vera að stinga af í upphafi leiks. Þeir voru 7-3 yfir þegar fjórtán mínútur voru liðnar og þetta leit ekki vel út fyrir danska liðið. Danirnir hrukku hinsvegar í gang í seinni hluta hálfleiksins.

Danir skoruðu fyrst þrjú mörk í röð og minnkuðu muninn í 7-6 og náðu svo tveggja marka forskoti í hálfleik, 12-10, með því að skora fjögur síðustu mörk hálfleiksins. Mikkel Hansen endaði hálfleikinn á því að skora beint úr aukakasti.

Danirnir unnu síðan fyrstu átta mínútur seinni hálfleiksins 5-2 og voru fyrir vikið komnir með fimm marka forskot, 17-12. Spænska liðið vann sig í gegnum þetta mótlæti og tókst að jafna metin í 19-19 á tæplega tólf mínútum.

Spánverjum tókst hinsvegar ekki að komast yfir og Danir náðu síðan aftur þriggja marka forskoti, 22-19, þegar tæplega níu mínútur voru til leiksloka. Spánverjar náðu öðrum góðum kafla og jöfnuðu metin í 23-23 þegar þrjár og hálf mínúta var eftir.

Staðan var síðan 24-24 þegar 75 sekúndur voru til leiksloka og Danir voru með boltann. Mikkel Hansen kom Dönum í 25-24 þegar 50 sekúndur voru eftir og Spánverjar skutu framhjá í næstu sókn.

Hér fyrir neðan má sjá allar helstu upplýsingar um framvindu leiksins, tölfræði, leikmannahópi liðanna auk textalýsingar frá blaðamanni Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×