Handbolti

Króatar tóku bronsið

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Lackovic fór mikinn í liði Króatíu eins og oft áður.
Lackovic fór mikinn í liði Króatíu eins og oft áður. MYND:NORDIC PHOTOS/AFP
Króatía sigraði Spán 31-27 í leiknum um bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í handbolta í dag. Króatara lögðu grunninn að sigrinum með góðri byrjun bæði í fyrri og seinni hálfleik en Króatía var einu marki yfir í hálfleik 13-12.

Króatar náðu mest fimm marka forystu í fyrri hálfleik 10-5 og virtust vera með leikinn í hendi sér en á tveimur síðustu mínútum fyrri hálfleiks skoraði Spánn þrjú mörk í röð auk þess að skora fyrsta mark seinni hálfleiks og leikurinn skyndilega jafn.

Þá skoraði Króatía níu mörk gegn þremur og munurinn kominn í sex mörk 22-16. Líkt og í fyrri hálfleik bættu Spánverjar sinn leik er leið á og þegar átta mínútur voru eftir af leiknum var munurinn kominn niður í tvö mörk 26-24.

Spánverjar fengu tækifæri til að minnka muninn í eitt mark þegar fjórar mínútur voru eftir en þá varði Alilovic vítakast Roberto Garcia og Króatar gengu á lagið og tryggðu sér bronsið.

Blazenko Lackovic var markahæstur í liði Króatíu með 8 mörk, Ivan Cupic skoraði 7 og Igor Vori 5. Mirko Alilovic varði 10 skot, þar af þrjú vítaköst.

Daniel Sarmiento skoraði flest mörk Spánar eða 7 og Iker Romero 6. Jose Javier Hombrados varði 8 skot í markinu.

Öll úrslitin á EM í handbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×