Handbolti

Ingimundur: Ökklinn verður í lagi

Henry Birgir Gunnarsson í Norrköping skrifar
Diddi var kátur eftir leikinn. Mynd/Valli
Diddi var kátur eftir leikinn. Mynd/Valli

Varnarjaxlinn Ingimundur Ingimundarson átti flottan leik í vörn íslenska liðsins í kvöld þó svo hann gangi augljóslega ekki alveg heill til skógar.

„Það var ekki stress í okkur í upphafi en í fyrsta leik á svona móti tekur smá tíma að komast í fílinginn. Okkur leið vel inn á vellinum og ég held að leikurinn hafi 80-90 prósent gengið upp eins og við lögðum hann upp," sagði Ingimundur, eða Diddi eins og hann er iðulega kallaður, kátur eftir leikinn.

„Það sem gekk ekki upp var að setja tuðruna í markið. Varamarkvörðurinn þeirra var að verja fullmikið frá okkur. Þess utan getum við verið nokkuð sáttir við þennan leik en við getum klárlega lagað nokkur atriði bæði í vörn og sókn. Það voru aðeins of margir tæknifeilar hjá okkar reyndustu mönnum," sagði Diddi og hló við.

Ingimundur hefur verið slæmur í ökklanum síðan í Þjóðverjaleikjunum og hann kveinkaði sér um tíma í dag.

„Ég er teipaður og þarf að hugsa vel um mig. Ég snéri aðeins upp á ökklann í leiknum en það slapp alveg. Svo framarlega sem ég misstíg mig ekki þá verður þetta í lagi. Þá get ég líka hlaupið fram í hraðaupphlaupin," sagði Ingimundur en hann skoraði tvö mörk í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×