Handbolti

Sturla: Hef trú á sigri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sturla Ásgeirsson í leik með íslenska landsliðinu.
Sturla Ásgeirsson í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Diener

Sturla Ásgeirsson er einn þriggja sérfræðinga Vísis um HM í handbolta en Ísland leikur í dag sinn fyrsta leik á mótinu, gegn Ungverjum.

Vísir er með ítarlega umfjöllun um mótið og liður í því að teymi sérfræðinga mun fjalla um leiki íslenska liðsins, bæði fyrir og eftir leik.

Sturla þekkir vel til í íslenska liðinu enda var hann bæði í silfurliðinu á Ólympíuleikunum í Peking og í bronsliðinu á EM í Austurríki í fyrra.

Auk hans verða Sigurður Bjarnason, fyrrum landsliðsmaður og Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins, Vísis innan handar á meðan mótinu stendur.

„Ég geri ráð fyrir því að leikmenn hafi í morgun verið á vídjófundum hjá Gumma þjálfara og að fara yfir andstæðinginn," sagði Sturla spurður um hvernig síðustu klukkutímarnir væru fyrir leiki liðsins á stórmótum.

„Það er oft æfing og fundur á leikdegi og svo er slakað á upp á hótelinu áður en liðið fer á keppnistaðinn. Leikmenn beita mismunandi aðferðum til að taka því rólega, sumir leggja sig en aðrir lesa eða horfa á sjónvarpið."

Sturla á von á erfiðum leik í dag. „Ungverjarnir virðast vera með mjög gott lið. Þarna eru margir leikmenn sem hafa verið lengi í landsliðinu. Liðið er þar að auki með frábæra hornamenn, frábæran línumann og góðar skyttur sem þarf að taka alvarlega."

„En ég tel að liðið sé búið að undirbúa sig vel fyrir leikinn. Það var strax byrjað að kíkja á þennan leik á síðustu æfingu liðsins hér heima," bætti hann við en Sturla var í nítján manna æfingahópi íslenska landsliðsins. Sautján leikmenn fóru svo til Svíþjóðar.

„Það sem við þurfum að passa sérstaklega er að gefa línumanninum ekki of mikið pláss. Íslenska vörnin hefur alltaf verið dugleg að mæta skyttum andstæðingsins og það vill oft verða til þess að það losni um línumanninn."

„En ég held að við vinnum þetta. Kannski ekki örugglega en allavega með 2-3 mörkum. Maður veit svo sem aldrei hvað gerist en ég hef góða tilfinningu fyrir þessum leik."

„Miðað við æfingaleikina gegn Þýskalandi lítur liðið vel út. Ég veit ekki betur en svo að allir séu heilir og klárir í slaginn. Nú þarf liðið að ná upp góðum leik. Ég hef enga trú á öðru en að það takist og að við vinnum þennan leik."

Sturla segir það vissulega svekkjandi að hafa ekki verið valinn til þess að fara til Svíþjóðar. „Það eru vissulega vonbrigði enda væri ég varla alvöru íþróttamaður ef ég væri sáttur við það. En svona er þetta bara í þetta skiptið. Ég vona fyrir hönd liðsins að því gangi vel. Ég mun fylgjast spenntur með heima."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×