Handbolti

Danir einir með fullt hús í C-riðli eftir léttan sigur á Alsír

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ulrik Wilbek er að gera góða hluti með Dani.
Ulrik Wilbek er að gera góða hluti með Dani. Mynd/AFP

Danir halda áfram sigurgöngu sinni á HM í handbolta en þeir unnu auðveldan sjö marka sigur á Alsíringum, 26-19, í kvöld. Danir hafa unnið alla fjóra leiki sína og eru einir á toppi síns riðils þar sem að Króatar gerðu jafntefli við Serba fyrr í kvöld.

Það var strax ljóst í hvað stefndi því Danir komust i 6-1, 9-2 og 16-8. Þeir voru 16-10 yfir í háfleik og náðu mest tólf marka forskoti í seinni hálfeik, 25-13).

Alsíringar náðu að laga stöðuna í lokin með því að skora þrjú síðustu mörkin og vinna síðustu fimmtán mínúturnar 6-1 en Danir leyfðu sér að slaka á enda löngu búnir að tryggja sér sigurinn.

Danir hafa unnið alla leiki sína á mótinu með sjö mörkum eða meira en þeir mæta Króötum í dag í hreinum úrslitaleik um sigurinn í riðlinum.

Enginn Dani skoraði meira en fimm mörk í leiknum en markahæstir voru þeir Mikkel Hansen og Lasse Svan Hansen með fimm mörk hvor og þá skoraði Jesper Nöddesbo fjögur mörk. Sörenn Rasmussen varði 10 af 19 skotum (53 prósent) og Niklas Landin tók 8 af 18 skot (44 prósent).

Rúmenar unnu sinn fyrsta leik í keppninni þegar þeir burstuðu Ástrali með fimmtán marka mun, 29-14. Rúmenar voru 14-6 yfir í hálfleik en eiga ekki möguleika á því að komast áfram því það verða Danir, Króatar og Serbar sem fara upp úr riðlinum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×