Handbolti

Til tíðinda dregur í dauðariðlinum á HM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heiner Brand, þýski landsliðsþjálfarinn, er undir mikilli pressu í heimalandinu.
Heiner Brand, þýski landsliðsþjálfarinn, er undir mikilli pressu í heimalandinu. Nordic Photos / Bongarts

Ætli Þjóðverjar sér að gera alvöruatlögu að sæti í undanúrslitunum verða þeir að vinna ógnarsterkt lið Frakklands á HM í Svíþjóð í dag. Leikurinn hefur ekki síst mikla þýðingu fyrir íslenska liðið þar sem líklegt er að bæði lið munu mæta Íslandi í milliriðlakeppninni.

Þýskaland tapaði fyrir Spánverjum í fyrradag og eru því búnir að mála sig út í horn. Ef Þjóðverjar tapa einnig fyrir Frökkum í dag má telja líklegt að þeir fari án stiga í milliriðlakeppnina og eigi þar með lítinn sem engan möguleika á sæti í undanúrslitum.

Það eina sem gæti bjargað þeim þýsku er að Spánverjar tapi tveimur síðustu leikjum sínum í riðlinum og komist ekki í milliriðlakeppnina. Spánn mætir Egyptalandi í kvöld en með sigri Egypta galopnast riðillinn. Þjóðverjar munu að minnsta kosti halda með Egyptum í kvöld því ef bæði þessi lið komast áfram með Frökkum fær Þýskaland stigin tvö með sér sem liðið fékk fyrir sigurinn á Egyptum í fyrstu umferð riðlakeppninnar.

Frakkar eru öruggir með sæti í milliriðlakeppninni en þeir eru með fullt hús stiga eftir þrjá leiki. Þeir eiga þó eftir að mæta tveimur sterkustu

andstæðingum sínum í riðlinum - Þýskalandi í dag og Spáni á morgun og er því enn algerlega óráðið hversu mörg stig þeir taka með sér til Jönköping.

Spánverjar hafa unnið alla sína leiki en þeir lentu í vandræðum með bæði Túnisa og Þjóðverja. Þeir gætu líka lent í erfiðleikum gegn Egyptum í kvöld og þá verður viðureign þeirra gegn Frökkum á morgun alls ekki auðveld.

Útlit er fyrir að lokaspretturinn í A-riðli verði afar spennandi því í raun eiga fimm af liðunum sex enn möguleika á því að komast áfram. Óskastaðan fyrir Ísland væri sú að Frakkar tapi öðrum leiknum sem þeir eiga eftir og að öll lið sem komist upp úr riðlinum fari hvert með tvö stig áfram. Stuðningsmenn íslenska landsliðsins skulu því fylgjast vel með í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×