Viðskipti innlent

Segir Ólaf Ólafs ekki fá krónu út úr Kjalari

Hjörleifur Jakobsson, forstjóri Kjalars.
Hjörleifur Jakobsson, forstjóri Kjalars.
„[Ljóst er] að eigendur Kjalars munu aldrei fá krónu út úr félaginu," segir í yfirlýsingu frá Kjalari, félagi Ólafs Ólafssonar, en Kjalar hefur krafið þrotabú Kaupþings banka um 115 milljarða króna vegna gjaldeyrisskiptasamnings sem endurnýjaður var 6. október 2008 í miðju bankahruninu.

Þetta fullyrðir Kjalar í yfirlýsingu. Ólafur Ólafsson var stjórnarformaður Eglu, en er það ekki lengur. Félagið á fjárhagslegra hagsmuna að gæta í málinu.

Félagið hefur höfðað mál gegn þrotabúi bankans í þessum tilgangi og verður fyrirtaka í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. Kjalar krefst þess að gjaldeyrisskiptasamningurinn við Kaupþing banka verði gerður upp á genginu 305 krónur fyrir hverja evru, sem er skráð gengi Seðlabanka Evrópu 14. október 2008, á uppgjörsdegi samkvæmt framlengdum gjaldeyrisskiptasamningi.

Slitastjórn Kaupþings telur kröfuna fráleita og að hún sé hvorki varin af settum lagareglum eða óskráðum meginreglum, en lögmaður slitastjórnar Kaupþings sagði jafnframt í hádegisfréttum á Bylgjunni að engin sanngirni væri „í því að menn græði 100 milljarða króna á átta daga gömlum samningi," og vísaði til þess að samningurinn var endurnýjaður 6. október 2008 en uppgjörsdagur var átta dögum síðar.

Skiptir miklu um skiptingu eignanna

Í yfirlýsingu Kjalars segir að félagið hafi gert samkomulag við lánardrottna sína um úrvinnslu á eignum. Sérstök nefnd lánardrottna fari með stjórn þess. Þar segir að eignir Kjalars séu nú 6 milljarðar í reiðufé og skuldabréfum auk eignarhlutar í HB Granda sem sé veðsettur Arion banka. Þá segir: „Ljóst er að gjaldmiðlaskiptasamningurinn veldur miklu um skiptingu eignanna. Ef Kjalar vinnur málið, skiptast allar eignir milli Glitnis og Eglu."

Fari svo að Kjalar tapi málinu skiptist eignirnar í samræmi við kröfur á félagið skömmu eftir hrun en þær munu gróflega verið þannig að Arion banki var með 75 prósent af kröfum, Glitnir 15 prósent og Egla, fyrrverandi dótturfélag Kjalars, um 10 prósent. Þess ber að geta að Ólafur Ólafsson er stjórnarformaður Eglu.

„Í ljósi þessa var einróma samkomulag í lánardrottnanefndinni um að ekki væri unnt að skipta eignum Kjalars þar til niðurstaða þessa máls liggur fyrir. Óháð niðurstöðu málsins er hinsvegar ljóst að eigendur Kjalars hf. munu aldrei fá krónu út úr félaginu," segir í yfirlýsingu Kjalars en hana sendir Einar Karl Haraldsson, almannatengill. thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×