Handbolti

HM í Svíþjóð hefst í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Frá æfnginu sænska landsliðsins í Gautaborg í morgun. Hér eru þeir Kim Andersson og Mattias Andersson að hita upp í fótbolta.
Frá æfnginu sænska landsliðsins í Gautaborg í morgun. Hér eru þeir Kim Andersson og Mattias Andersson að hita upp í fótbolta. Nordic Photos / AFP

Heimsmeistarakeppnin í handbolta hefst í Svíþjóð í kvöld en heimamenn mæta Síle í opnunarleik keppninnar.

Svíar ætla sér sjálfsagt stóra hluti á HM í heimalandinu en þeir urðu Evrópumeistarar síðast þegar stórmót var haldið í Svíþjóð, árið 2002. HM var einnig haldið þar í landi árið 1993 en þá urðu Svíar í þriðja sæti.

En þeir hafa ekki unnið til verðlauna á stórmóti síðan 2002 og á nú ný kynslóð sænskra handknattleiksmanna að leika eftir afrek gullaldarára sænska landsliðsins. Landsliðið er nú þjálfað af gömlum kempum sem eru Íslendingum vel kunnugir, Staffan „faxi" Olsson og Ola Lindgren.

Svíar eru með gríðarlega sterka varnarmenn, þá Magnus Jernemyr og Tobias Karlsson og mun mikið mæða á þeim. Svíar hafa svo alltaf átt sterka markverði og er líklegt að Mattias Andersson verði fyrsti kostur í marki þeirra nú.

Jonas Larholm er þó veikur eftir því sem fram kemur í sænskum fjölmiðlum og mun því ekki spila með Svíum í kvöld.

Síle mun í kvöld þreyta frumraun sína á HM í handbolta og verður að teljast afar ólíklegt að leikurinn í kvöld verði spennandi. Þeirra þekkasti leikmaður er leikstjórnandinn Marco Antonio Oneto sem spilar með stórliði Barcelona.

Leikurinn hefst klukkan 19.15 í kvöld og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Umfjöllun hefst klukkan 17.30 með upphitunarþætti og svo tekur Þosteinn J. á móti gestum í myndveri klukkan 18.15 og svo aftur eftir leik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×