Viðskipti innlent

Ráðherra heimilt að leysa upp hlutafélög

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri.
Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri.
Efnahags- og viðskiptaráðherra er heimilt að leysa upp hlutafélög sem hafa ekki skilað inn ársreikningum þannig að eigendur þeirra beri eftirleiðis ótakmarkaða persónulega ábyrgð á rekstri og skuldum félaganna. Heimildinni hefur aldrei verið beitt. Þúsundir félaga eru í vanskilum með ársreikninga.

Hlutafélagaforminu fylgja meðal annars þau forréttindi að eigendur bera ekki ábyrgð á þeim umfram eignarhlut sinn; en lögum samkvæmt þurfa hlutafélög og einkahlutafélög að uppfylla ýmis skilyrði. Þeim ber tildæmis að skila ársreikningum til fyrirtækjaskrár. En á þessu hafa verið verulegir brestir. Upp undir 8000 hlutafélög og einkahlutafélög eru í vanskilum með ársreikninga. Sum hafa ekki skilað inn reikningum árum saman. Dæmi munu vera um að félag hafi aldrei skilað reikningi.

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, bendir á að efnahags- og viðskiptaráðherra hafi heimild til að leysa upp félög sem ekki skila reikningum; en heimildinni hafi aldrei verið beitt. En hvaða afleiðingar hefði það?

„Þá myndi reksturinn raunverulega halda áfram en hann yrði þá í fullri og ótakmarkaðri ábyrgð eigenda," segir Skúli Eggert.

Hann hefur varpað fram þeirri hugmynd að ársreikningaskrá fái heimild til að leysa félög upp; menn sem af einhverjum ástæðum fáist ekki til að virða reglur; eigi ekki að fá að fela sig á bak við takmarkaða ábyrgð. „Það getur ekki gengið þannig áfram og það verður að grípa til einhverra úrræða."

Skúli Eggert segir að menn hafi tekið misjafnlega í hugmyndina. Sumir telji þetta of harkalegt en aðrir nauðsynlegt. Fréttastofa hefur ekki náð tali af efnahags- og viðskiptaráðherra vegna málsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×