Viðskipti innlent

Héraðsdómur segir álit EFTA dómstólsins óþarft

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fjármögnunarleigusamningar voru notaðir til að fjármagna kaup á atvinnutækjum.
Fjármögnunarleigusamningar voru notaðir til að fjármagna kaup á atvinnutækjum.
Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag kröfu fjármögnunarfyrirtækisins Lýsingar um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA dómstólsins á banni í íslenskum vaxtalögum við því að binda skuldbindingar í íslenskri krónu við gengi erlendra gjaldmiðla.

Forsaga málsins er sú að fyrirtækið Smákranar stefndi Lýsingu vegna fjármögnunarleigusamnings sem gerður var til að fjármagna atvinnutæki. Samningurinn var bundin við gengi erlendra gjaldmiðla. Þegar Hæstiréttur komst síðan að þeirri niðurstöðu í sumar að kaupleigusamningar sem bundnir eru við erlenda mynt væru óheimilir samkvæmt vaxtalögum stefndu Smákranar Lýsingu á þeirri forsendu að fjármögnunarleigusamningurinn hefði einnig verið ólöglegur.

Lýsing telur að ákvæði vaxtalaga, samkvæmt niðurstöðum Hæstaréttar frá því í sumar, stangist á við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum sem tók gildi hér á landi árið 1994. Ekki hefði verið tekið á þessu atriði í dómi Hæstaréttar.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að niðurstaða EFTA dómstólsins hefði enga þýðingu fyrir úrlausn málsins. Um innlendan réttarágreining væri að ræða. Ekkert í málinu gæfi vísbendingu um að lánveitingin tengdist tveimur eða fleiri aðildarríkjum eða að hún væri gerð þvert á landamæri.

Einar Hugi Bjarnason, lögmaður hjá ERGO lögmönnum, sem flutti málið fyrir Smákrana segir að niðurstaða Héraðsdóms í morgun komi sér ekki á óvart. „Ég hafði sagt strax í upphafi að þessi beiðni var byggð á mjög ótraustum grunni. Þessi niðurstaða kemur mér ekki á óvart," segir Einar Hugi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×