Handbolti

Norðmenn unnu Japana með sex mörkum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erlend Mamelund skorar hér eitt af sex mörkum sínum í kvöld.
Erlend Mamelund skorar hér eitt af sex mörkum sínum í kvöld. Mynd/AFP

Norðmenn komust upp fyrir Ísland á toppi B-riðils með sex marka sigri á Japan, 35-29, í kvöld í fyrsta leik sínum á HM í handbolta í Svíþjóð. Ísland vann Ungverja líka með sex marka mun fyrr í dag en er nú komið niður í annað sætið í riðlinum á færri mörkum skoruðum.

Sigur Norðmanna var aldrei í mikilli hættu en þeim tókst þó aldrei að losa sig almennilega frá japanska liðinu fyrr en í lokin. Noregur var 18-13 yfir í hálfleik.

„Þetta var upp og ofan hjá okkur í þessum leik en spilamennskan var allt í lagi. Það var verst að fá svona mikið af brottreskstrum því annars hefði þetta gengið mun betur hjá okkur," sagði Robert Hedin, þjálfari Norðmanna eftir leikinn.

Bjarte Myrhol skoraði níu mörk fyrir Norðmenn en þeir Erlend Mamelund, Håvard Tvedten og Einar Sand Koren skoruðu allir sex mörk. Tetsuya Kadoyama skoraði mest sjö mörk fyrir Japan.

Norðmenn voru átta sinnum reknir útaf í tvær mínútur en Japanir fóru aðeins einu sinni í skammakrókinn.

Norðmenn mæta Ungverjum í sínum öðrum leik á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×