Viðskipti innlent

35 milljarða viðskipti til rannsóknar

Sérstakur saksóknari gerði í gær húsleitir á fimm stöðum, meðal annars í Seðlabanka Íslands, og handtók fjóra fyrrverandi starfsmenn Landsbankans vegna rannsóknar á 35 milljarða viðskiptum sem Landsbankinn átti 6. október 2008, daginn áður en bankinn var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu.

Alls voru á annan tug manna yfirheyrðir. Þeir sem voru handteknir eru Jón Þorsteinn Oddleifsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri eignastýringar bankans, Þórir Örn Ingólfsson, fyrrverandi yfirmaður áhættustýringar, Hannes Júlíus Hafstein, fyrrverandi deildarstjóri fjárfestingarbanka á lögfræðisviði bankans, og Stefán Héðinn Stefánsson, fyrrverandi stjórnarformaður Landsvaka og núverandi aðstoðarforstjóri Saga fjárfestingarbanka.Þeir voru allir látnir lausir eftir yfirheyrslur í gærkvöldi.

Annars vegar snýr rannsóknin að millifærslum af reikningi Landsbankans í Seðlabankanum yfir til MP banka og Straums vegna endurhverfra viðskipta við Seðlabankann. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru 7,2 milljarðar millifærðir til Straums og 7,4 milljarðar til MP banka.

Einnig eru til rannsóknar kaup bankans á bréfum í sjálfum sér og Straumi úr sjóðum Landsvaka fyrir tæpa 20 milljarða eftir að sjóðunum var lokað. - sh /












Fleiri fréttir

Sjá meira


×