Björgvin Páll Gústavsson varð í kvöld meistari með svissneska liðinu Kadetten Schaffhausen annað árið í röð eftir stórsigur á Pfadi Winterthur, 38-25.
Kadetten hafði þar með sigur í úrslitaeinvíginu, 3-0, en Björgvin Páll hefur átt hvern stórleikinn á fætur öðrum á lokaspretti tímabilsins.
Þetta var í fimmta sinn í sögu félagsins sem Kadetten verður meistari en Björgvin Páll er nú á leið til Þýskalands þar sem hann gengur til liðs við Magdeburg í sumar. Hann kvaddi því Kadetten með viðeigandi hætti í kvöld.
„Þetta var meira en fullkomið tímabil,“ sagði forseti félagsins, Giorgio Behr, eftir leikinn en Kadetten vann allt sem hægt var að vinna á tímabilinu í Sviss.

