Viðskipti innlent

Raungengi krónunnar lækkaði í desember

Raungengi íslensku krónunnar lækkaði um 0,6% í desember síðastliðnum á mælikvarða hlutfallslegs verðlags. Er þetta í takti við þróunina á nafngengi krónunnar á sama tímabili sem og þróun verðlags.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandbanka. Þar segir að þannig lækkaði nafngengi krónunnar um 0,8% á milli mánaða og verðlag hækkaði um 0,3%.

Gildi raungengisins á þennan kvarða er nú 77,3 stig sem er ríflega 14% hærra en það var í desember árið á undan. Þetta kemur fram í tölum sem Seðlabanki Íslands birti í gær.

Raungengi íslensku krónunnar á síðasta ári á ofangreindan mælikvarða var að meðaltali 74,5 stig og hækkaði um 6,4% frá árinu 2009. Var raungengið þó enn langt frá sínu langtímameðaltali, eða ríflega 23% undir meðaltali áranna 1980-2009.

Munurinn var þó enn meiri ef stuðst er við hlutfallslegan launakostnað. Þannig var raungengið á þann kvarða ríflega 26% undir meðaltali síðustu þriggja áratuga og er sú þróun til marks um það hrun í kaupmætti á alþjóðlegum mælikvarða sem orðið hefur hér á landi í kjölfar bankahrunsins.

Þó var staðan heldur betri á síðasta ári en árið 2009 þar sem raungengið á þennan kvarða hækkaði um 13% milli ára.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×