Handbolti

DHC Rheinland á barmi gjaldþrots

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kai Wandschneider, þjálfari Rheinland.
Kai Wandschneider, þjálfari Rheinland. Nordic Photos / Bongarts

Þýska úrvalsdeildarfélagið DHC Rheinland stendur fyrir því að félagið verði á allra næstu dögum úrskurðað gjaldþrota.

Þetta staðfesti framkvæmdarstjóri félagsins, Heinz Lieven, í samtali við þýska fjölmiðla í dag.

Landsliðsmaðurinn Sigurbergur Sveinsson er á mála hjá DHC Rheinland og er óvíst hvað tekur við hjá honum.

Málið verður tekið fyrir í dómstólum á morgun en öllum starfsmönnum, þjálfurum og leikmönnum hefur verið sagt upp störfum frá og með 15. mars næstkomandi.

En eftir því sem kemur fram í þýskum fjölmiðlum er líklegt að liðið muni spila tvo leiki til viðbótar og svo verði félagið endanlega hætt störfum.

Rheinland á að mæta á miðvikudaginn liði Füchse Berlin á útivelli og hefur síðarnefnda liðið boðist til að standa undir ferðakostnaði liðsins og leigja til að mynda rútu til að koma liðinu á leikstað.

Rheinland á svo leik gegn Melsungen á sunnudaginn og er líklegt að það verði síðasti leikur liðsins í þýsku úrvalsdeildinni - ekki nema að félaginu verði bjargað á síðustu stundu.

Forráðamenn þýsku úrvalsdeildarinnar segja að þetta komi þeim í opna skjöldu þar sem að forráðamenn félagsins hafi hingað til staðið í skilum að öllu leyti. Sjúkratryggingar, laun og svo framvegis - allt hafi verið greitt á réttum tíma.

Um leið og félagið verður úrskurðað gjaldþrota mun liðið falla úr þýsku úrvalsdeildinni.

Það eina sem myndi bjarga félaginu væri ef fjársterkur stuðningsaðili kæmi inn í félagið en forráðamenn þess eru ekki vongóðir á að það takist á næstu dögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×