Viðskipti innlent

Þriggja milljarða búhnykkur

Loðnu dælt úr nótinni Kap VE, skip Vinnslustöðvarinnar í Eyjum, á veiðum í mars 2008. fréttablaðið/óskar
Loðnu dælt úr nótinni Kap VE, skip Vinnslustöðvarinnar í Eyjum, á veiðum í mars 2008. fréttablaðið/óskar
Hafrannsóknastofnunin hefur lagt til 65 þúsund tonna aukningu á leyfilegum hámarksafla í loðnu. Ráðlagður heildarafli er því 390 þúsund tonn en var 325 þúsund tonn fyrir nýjustu rannsóknir og mælingar. Þetta er í annað sinn á þremur vikum að lagt er til að bæta verði við kvótann. 24. janúar var kvótinn aukinn úr 200 þúsund tonnum í 325 þúsund tonn.

Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson hefur fylgst með loðnugöngum við austan- og sunnanvert landið frá 4. febrúar og með rannsóknum lagt mat á stærð veiðistofnsins. Samkvæmt þessum mælingum eru 608 þúsund tonn af kynþroska loðnu á ferðinni. Áður en ofangreind mæling fór fram er áætlað að veidd hafi verið 180 þúsund tonn af loðnu og því er áætluð stærð stofnsins, sem lögð er til grundvallar aflamarksútreikningum, 788 þúsund tonn.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, telur að 65 þúsund tonn af loðnu verði metin til rúmlega þriggja milljarða króna í útflutningsverðmætum. „Þetta er búhnykkur fyrir samfélagið.“ Hann er bjartsýnn á loðnuveiðar og vinnslu til næstu ára og útilokar ekki að stór loðnuvertíð sé skammt undan. Mælingar Hafró sýni ört batnandi ástand stofnsins sem hugsan­lega taki að gæta í ráðgjöf strax á næstu vertíð. - shá





Fleiri fréttir

Sjá meira


×