Handbolti

Þórir: Það er mikil framtíð í mörgum af íslensku stelpunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson stýrði norska kvennalandsliðinu til þrettán marka sigurs á móti íslensku stelpunum á HM í Brasilíu í kvöld. Hann var í viðtali hjá Sigurði Elvari Þórólfssyni í þættinum hjá Þorsteini Joð á Stöð 2 Sport í kvöld.

„Það er sennilega svona mikill munur á þessum liðum í svona móti. Í einstaka leik geta íslensku stelpurnar haldið í við okkur en þetta er mót og þriðji leikur liðanna. Við erum í Suður-Ameríku og við erum með mikla reynslu. Það er minni reynsla í íslenska liðinu en mikil framtíð. Ég myndi segja að það væri svona 10 til 15 marka munur á liðunum," sagði Þórir.

„Ég er ánægður með vörnina en þetta spilaðist eins og við bjuggumst við. Íslensku stelpurnar eru með boltann í 20 mínútur í fyrri hálfleik en við fáum hann lánaðann í tíu mínútur. Þá verður þetta svolítil þolinmæðisprufa fyrir okkur sem reynir á. Við náðum að halda góðri einbeitingu varnarlega og markvarslan var góð," sagði Þórir.

„Mér finnst það voðaleha leitt að þurfa að vinna þennan leik en svona er þetta bara. Ég er mjög hrifinn af íslenska liðinu og það er verið að gera mjög góða hluti heima með bæði lítinn pening og lítinn mannskap. Það er gaman að sjá þetta og það er mikil framtíð í mörgum af þessum stelpum," sagði Þórir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×