Viðskipti innlent

Jón Gunnar nýr forstjóri Bankasýslunnar

Jón Gunnar Jónsson er nýr forstjóri Bankasýslunnar.
Jón Gunnar Jónsson er nýr forstjóri Bankasýslunnar. samtsett mynd/Vísir
Stjórn Bankasýslu ríkisins hefur ráðið Jón Gunnar Jónsson sem nýjan forstjóra Bankasýslunnar. Ný stjórn var skipuð af fjármálaráðherra 3. nóvember síðastliðinn og var starfið síðan auglýst laust til umsóknar 9 dögum síðar. Sautján umsóknir bárust en fjórir umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka.

Jón Gunnar starfaði hjá fjárfestingarbankanum Merrill Lynch í New York 1992-1996, í Hong Kong 1996-2001 og í London 2001-2008, við útboð og greiningu á skuldabréfum, greiningu á skuldatryggingum, fjármögnun á yfirtökum og fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja, og sat í stjórn MP banka (EA fjárfestingarfélags) frá 2010-2011, þar sem hann tók þátt í endurskipulagningu bankans.

Hann er með LL.M. gráðu í lög- og hagfræði frá Università di Bologna og Universität Hamburg, þar sem hann skrifaði meistararitgerð um fjárhagsskipan banka, og B.S. gráðu frá Cornell University, School of Hotel Administration, í Íþöku, New York fylki.

„Stjórn Bankasýslu ríkisins skipaði hæfnisnefnd vegna umsóknarferlisins þann 18.11.2011. Nefndin mótaði vinnuferli fyrir mat á umsækjendum sem lagt var fyrir stjórn til samþykktar og hefur verið birt á heimasíðu Bankasýslunnar.

Nefndin framkvæmdi í kjölfarið mat á hæfni umsækjenda skv. þessu vinnuferli og var m.a. tekið mið af hæfismati FME fyrir stjórnendur og stjórnarmenn fjármálafyrirtækja. Mat nefndarinnar á þremur hæfustu umsækjendunum var lagt fyrir stjórn Bankasýslunnar sem tók ákvörðun um ráðningu að loknum viðtölum við þá umsækjendur," segir í tilkynningu frá Bankasýslu ríkisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×