Viðskipti innlent

Vafamál um kaup á hlutabréfum í Össuri

Gunnar Anderse. Hlutverk FME er að skoða vafamál eða eyða vafanum, segir forstjóri FME.
Gunnar Anderse. Hlutverk FME er að skoða vafamál eða eyða vafanum, segir forstjóri FME. Mynd/Pjetur

„Ef það kemur upp vafamál þessu líku þá er það hlutverk okkar að komast til botns í því eða eyða vafanum,“ segir Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, FME.

Danski fjárfestingarsjóðurinn William Demant Holding keypti í síðustu viku 2,4 prósenta hlut í stoðtækjafyrirtækinu Össuri á hlutabréfamarkaði í Danmörku. Sjóðurinn er helsti hluthafi Össurar og á eftir viðskiptin 39,6 prósenta hlut.

Yfirtökuskylda miðast við 30 prósenta hlut í skráðu félagi. Alþingi breytti reglunum fyrir jól í fyrra á þann veg að þeir sem áttu yfir 30 prósent atkvæðisréttar í skráðum félögum fyrir 1. apríl í fyrra mega ekki auka við hlut.

Greiningarfyrirtækið IFS bendir á að kaupin veki upp spurningar um það hvort yfirtökuskylda hafi hugsanlega myndast af hálfu William Demant.

Eftirlit með yfirtökureglum er í höndum FME og hefur það túlkunar- og úrskurðarvald í málinu. Gunnar vildi ekki tjá sig um málið að öðru leyti.

Stoðtækjafyrirtækið er skráð á markað hér og á hlutabréfamarkað í Kaupmannahöfn og eru dönsku yfirtökureglurnar rýmri en þær íslensku. Stefnt er að afskráningu félagsins og verður fjallað um hana á hluthafafundi Össurar í næsta mánuði. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×