Handbolti

Ísland spilar um 5. sætið á HM - Spánverjar unnu Ungverja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Valli
Það voru sannkölluð draumaúrslit fyrir okkur Íslendinga í okkar milliriðli í dag því Spánverjar voru að vinna sex marka sigur á Ungverjum, 30-24 en áður höfðu Norðmenn unnið Þjóðverja. Ísland spilar því um fimmta sætið við Króata á HM og er jafnframt öruggt með sæti í forkeppni Ólympíuleikanna.

Norðmenn og Spánverjar gerðu okkur greiða því ef þau höfðu tapað sínum leikjum hefðu íslensku strákarnir þurft að vinna Frakka til þess að sleppa við það að spila um níunda sætið á mótinu. Nú er líka ljóst að það er ekkert undir fyrir íslenska liðið í leiknum við Frakka á eftir.

Spánverjar sýndu styrk sinn á móti Ungverjum og voru með gott forskot nánast allan leikinn. Liðið spilaði á öllu leikmönnum sínum og er til alls líklegt í undanúrslitunum.

Spánverjar byrjuðu leikinn vel og komust í 4-1 og 8-4. Ungverjar skoruðu þá 5 mörk gegn 1 á sex mínútna kafla og náðu að jafna í 9-9.Spánverjar komust aftur tveimur mörkum yfir, í bæði 11-9 og 12-10 en Ungverjar náðu síðan að jafna metin aftur í 12-12 og staðan var síðan 13-13 í hálfleik.

Nándor Fazekas varði þrjú fyrstu skot Spánverja í seinni hálfeik en spænska liðið skoraði engu að fjögur fyrstu mörk hálfleiksins og komst í 17-13. Ungverjar minnkuðu muninn aftur í tvö mörk, 17-15 og 18-16 en spænska liðið svaraði því með þremur mörkum í röð og komst fimm mörkum yfir 21-16.

Spánverjar héldu góðu forskoti út leikinn, Ungverjar náðu að minnka muninn við og við en þá virtist spænska liðið alltaf geta bætt í og aukið muninn aftur.

Iker Romero fór á kostum hjá Spáni og skoraði 9 mörk í leiknum en þeir Joan Canellas, Albert Rocas, Christian Ugalde og Viran Morros voru allir með þrjú mörk.

Leiknum var lýst beint á Boltavaktinni: Spánn - Ungverjaland








Fleiri fréttir

Sjá meira


×