Viðskipti innlent

Gefur í skyn að Már hafi skreytt sig með stolnum fjöðrum

Greining Íslandsbanka gefur í skyn að Már Guðmundsson seðlabankastjóri hafi skreytt sig með stolnum fjöðrum þegar hann rökstuddi stýrivaxtaákvörðun bankans í gærdag.

Fjallað er um stýrivaxtaákvörðun Peningastefnunefndar Seðlabankans í Morgunkorni greiningarinnar. Eins og kunnugt er af fréttum var ákveðið að halda stýrivöxtunum óbreyttum. Allir áttu von á þessu enda seðlabankastjóri svo gott sem búinn að segja að svona yrði þetta á fundi hjá þingnefnd fyrir nokkru síðan.

Raunar var ákvörðunin svo fyrirséð að enginn frétta- eða blaðamaður hafði fyrir því að mæta á hinn hefðbundna blaðamannafund um málið í Seðlabankanum í gærmorgun. Nokkuð sem ekki hefur gerst í áratug.

Hvað varðar rökstuðning Más og tilvitnun hans í nýjar tölur Hagstofunnar um 3,7% hagvöxt á árinu segir  í Morgunkorninu að Már hefði sagt að tölur Hagstofunnar sýndu að hóflegar vaxtahækkanir bankans á seinni helmingi ársins  hafi ekki slegið batann út af laginu. Þau ummæli séu raunar athyglisverð í ljósi þess að bankinn hóf ekki að hækka vexti fyrr en rúmur mánuður var eftir af því tímabili sem tölur Hagstofunnar ná yfir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×