Handbolti

Lið Ingimundar verður ennþá til þegar hann kemur til baka af HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ingimundur Ingimundarson fagnar hér með íslenska landsliðinu.
Ingimundur Ingimundarson fagnar hér með íslenska landsliðinu. Mynd/DIENER
Danska handboltaliðinu AaB Håndbold var bjargað frá gjaldþroti milli jóla og nýárs þegar viðskiptamaðurinn Eigild Christensen keypti félagið. Landsliðsmaðurinn Ingimundur Ingimundarson spilar með danska liðinu og veit nú að liðið hans verður enn starfrækt þegar hann snýr aftur frá HM í handbolta í Svíþjóð í byrjun febrúar.

Leikmenn og þjálfarar munu allir klára tímabilið undir merkjum AaB Håndbold en liðið er eins og er 4. sæti dönsku deildarinnar með 22 stig (9 sigrar, 4 jafntefli, 4 töp) út úr fyrstu 17 leikjum sínum.

AaB Håndbold mun halda áfram að spila í Gigantium-höllinni í Álaborg en það lítur út fyrir að næsta haust verði félagið komið með nýtt nafn og nýja liti á búningi sínum sem hefur hingað til verið rauður og hvítur.

„Það er frábært að hafa á svona stuttum tíma tekist að tryggja fjárhagslegan grunn fyrir framtíð handboltans í Norður-Danmörku. Við erum þakklátir fyrir að Eigild B. Christensen var tilbúinn að styðja okkur fjárhagslega en vonumst líka að fá styrktaraðila úr viðskiptalífinu í Norður-Danmörku," sagði Jan Larsen, Íþróttastjóri félagsins.

„Við munum tilkynna um áætlanir okkar í vor en það er áfram að vera með eitt af fjórum bestu liðunum í dönsku úrvalsdeildinni. Ég held að búningarnir verði ekki áfram hvítir og rauðir því við munum velja nýjan lit á búninginn," sagði Larsen.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×