Viðskipti innlent

Skilanefnd Kaupþings næst stærst í Circle Oil á eftir líbíska ríkinu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Skilanefnd Kaupþings er næst stærsti hluthafinn í olíufyrirtækinu Circle Oil með rúmlega níu prósenta hlut á eftir fjárfestingarsjóði Líbíska ríkisins, en Kaupþing fjárfesti með Líbíumönnum í sjóðnum á sínum tíma.

Í byrjun september 2008, rétt fyrir bankahrun, keypti Kaupþing 15,6 prósenta hlut í olíufyrirtækinu Circle Oil, sem er í grunninn írskt fyrirtæki. Kaupþing greiddi tíu milljónir punda fyrir hlutinn, jafnvirði um 1,8 milljarða króna.

Samtímis keypti fjárfestingarsjóðurinn Libya Oil Holdings, sem er í eigu opinbers fjárfestingarsjóðs Líbíu (LIA, Libyan Investment Authority) tæplega 30 prósenta hlut.

Í tilkynningu frá Circle Oil á sínum tíma kom fram að féð átti að nota til að fjármagna olíu- og gasleit í Marrokkó, Túnis og Egyptalandi. Ekki verður betur séð en að þessar framkvæmdir séu komnar á fullt, miðað við upplýsingar úr ársreikningi og á vefsíðu félagsins.

Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar Kaupþings sagði í samtali við fréttastofu í dag að Kaupþing héldi enn á eignarhlut í Circle Oil og ekki hefðu átt sér stað þreifingar um sölu á hlutnum. Kaupþing á ekki mann í stjórn fyrirtækisins en að sögn Steinars kemur bankinn mjög lítið að félaginu sem slíku.

Samkvæmt ársreikningi félagsins yrir árið 2010 er hlutur Kaupþings í dag 9,34 prósent, og er bankinn næststærsti hluthafinn með rúmlega 52 milljónir huta á eftir líbíska sjóðnum sem er með 100 milljónir hluta og 17,75 prósenta hlut. Hlutabréfaeign líbíska sjóðsins í Circle Oil var fryst í mars síðastliðnum, í kjölfar óstöðugleika í klandinu samkvæmt upplýsingum úr ársreikningnum, sem birtur var á vormánuðum.

Virði eigin fjár samkvæmt ársreikningnum er rúmlega 138 milljónir dollara, sem þýðir 12,8 milljóna dollara verðmæti hlutar Kaupþings eða jafnvirði 1,4 milljarða króna. Miðað við gengi bréfa í félaginu í Kauphöllinni í Lundúnum um miðjan dag í dag er verðmæti hlutarins töluvert hærra, eða 2,2 milljarðar króna, en bréfin voru að seljast á 23 sent á hlutinn.

Circle Oil skilaði rúmlega tíu milljóna dollara hagnaði á síðasta ári, jafnvirði 1,1 milljarðs króna. Þó fyrirtækið gangi þokkalega í dag verðu ekki annað sagt en að eigendahópurinn sé sérstakur því stærsti hluthafinn er sjóður lands í miðju borgarastríði og næststærsti hluthafinn gjaldþrota banki á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×