Innlent

Ólíkar áherslur um breytta ríkisstjórn

Aðildarumsóknin að Evrópusambandinu er ekki síst það sem valdið hefur titringi á meðal stjórnarflokkanna. Samfylkingin leggur áherslu á að fá atvinnuvegaráðuneyti, verði það stofnað, þar sem flokksmönnum þykir Jón Bjarnason hafa dregið lappirnar varðandi umsóknina. fréttablaðið/gva
Aðildarumsóknin að Evrópusambandinu er ekki síst það sem valdið hefur titringi á meðal stjórnarflokkanna. Samfylkingin leggur áherslu á að fá atvinnuvegaráðuneyti, verði það stofnað, þar sem flokksmönnum þykir Jón Bjarnason hafa dregið lappirnar varðandi umsóknina. fréttablaðið/gva
jóhanna sigurðardóttir
Hvaða áform eru uppi um breytingar á ríkisstjórn?

Óhætt er að segja að titringur hafi komið upp á stjórnarheimilinu þegar tillögur starfshóps um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu birtust á vef sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Ríkisstjórnin hafði skipað ráðherranefnd til að fara með málið, sem var áður á forræði fagráðherrans Jóns Bjarnasonar.

Þetta gerðist fyrir nákvæmlega tveimur vikum, laugardaginn 26. nóvember. Tveimur dögum síðar funduðu þingflokkar stjórnarflokkanna og samkvæmt heimildum Fréttablaðsins kom rík krafa um brotthvarf Jóns fram á fundi Vinstri grænna.

Ekkert hefur verið látið uppi um hvaða áform eru um breytingar á ráðherraliðinu. Fyrir vikið hafa ýmsar kenningar farið á flot, mjög misáreiðanlegar. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa verið duglegir við að þýfga ráðherra um stuðning við Jón Bjarnason og oddvita stjórnarflokkanna um hvaða breytingar eru fyrirhugaðar.

Lítið hefur hins vegar verið um svör, sem er kannski ekki nema von. Ekki er venjan að tilkynna fyrirfram um breytingar á ríkisstjórnum. Steingrímur og Jóhanna halda spilunum þétt upp að sér og ólíklegt er að nokkuð verði tilkynnt fyrr en rétt áður en breytingar skella á.

Ljóst er hins vegar að meiningarmunur er á milli oddvitanna um hvaða leiðir á að fara. Ein hugmynd sem rædd hefur verið er að leggja efnahags- og viðskiptaráðuneytið niður og koma verkefnunum fyrir í öðrum ráðuneytum. Með því færðust öll efnahagsmál á hendur fjármálaráðuneytisins.

Steingrímur gaf því undir fótinn á dögunum í umræðum á Alþingi, en Jóhanna sagði slíkt ekki í takti við stjórnarsáttmálann og engin málefnaleg rök væru fyrir breytingunni. Meiningarmunurinn er því ljós á milli oddvitanna.

Heimildir Fréttablaðsins herma að einmitt þarna liggi hundurinn grafinn. Vinstri græn vilji ekki gera þá einföldu breytingu að Jón Bjarnason fari úr ríkisstjórn. Frekari breytingar þurfi.

Það rímar ágætlega við hugmyndir Samfylkingarinnar og stjórnarsáttmálann. Þar er talað um fækkun ráðuneyta í níu og stofnun umhverfis- og auðlindaráðuneytis og atvinnuvegaráðuneytis. Hvort stjórnin hafi styrk í slíkar breytingar núna er stóra spurningin.

Verði atvinnuvegaráðuneyti stofnað þykir Vinstri grænum hallað á sig hvað valdajafnvægi varðar. Þau yrðu þá með færri ráðherra og jafnvel gæti komið upp sú staða að þau krefðust embættis forseta Alþingis. Hefð er fyrir því að það sé skjól fyrir brotthorfna ráðherra, þannig að eins víst er að Jón Bjarnason gæti gert tilkall til þess.

Allsendis óvíst er hvort það dugir til. Fái Samfylkingin atvinnuvegaráðuneyti þykir halla á samstarfsflokkinn í málefnavægi. Það mundi nást verði efnahags- og viðskiptaráðuneytið lagt niður.

Formanna flokkanna bíður að leysa úr þessum ráðherrakapli þannig að hann gangi upp. Óvíst er hvenær það verður, en allt bendir til að það gerist á þessu ári.

kolbeinn@frettabladid.is

steingrímur j. sigfússon



Fleiri fréttir

Sjá meira


×