Fastir pennar

Byssa eða bíll?

Ólafur þ. Stephensen skrifar
Skotárás vegna uppgjörs í undirheimum Reykjavíkur hefur réttilega vakið mikla athygli og ekki síður gríðarlegt vopnabúr, sem lögreglan fann hjá meðlimum glæpaklíku sem talin er viðriðin árásina. Klíkubræður hafa verið settir í gæzluvarðhald vegna rannsóknar málsins. Enginn dó reyndar eða slasaðist í árásinni; byssumaðurinn hitti ekki. Flestir vona samt sjálfsagt að skotmaðurinn fái þungan dóm fyrir tilraun til manndráps.

Í fyrrakvöld hafði annar maður uppi tilburði til að drepa fólk. Sá var bæði undir áhrifum áfengis og fíkniefna og ók úr Borgarnesi og í átt til höfuðborgarinnar á allt að 150 kílómetra hraða áður en lögreglan náði að stöðva hann í Hvalfjarðargöngunum með því að sprengja eitt dekkið á bílnum. Enginn dó eða slasaðist, en það er ekki ökumanninum að þakka.

Reynslan segir okkur að bæði réttargæzlukerfið og almenningsálitið muni líkast til taka með ólíkum hætti á brjálæðingnum með byssuna og brjálæðingnum á bílnum. Samt er ekki auðvelt að færa rök fyrir því að byssumaðurinn sé meiri ógn við líf og heilsu almennings en ökumaðurinn. Ef eitthvað er, sýna atvinnuglæpamenn oft þá tillitssemi að reyna frekar að drepa aðra glæpamenn en saklausa borgara. Hver sem er getur hins vegar týnt lífinu eða örkumlazt fyrir lífstíð af því að hann lendir fyrir tilviljun í vegi útúrdópaðs ökuníðings.

Það er eitthvað einkennilegt við mismunandi viðbrögð við manndrápstilburðum með hnefum eða vopnum og með ökutækjum. Sá sem gengur um miðbæinn, sveiflar öxi eða hafnaboltakylfu í kringum sig og hótar að drepa fólk er tekinn úr umferð; settur í varðhald eða vistaður á viðeigandi stofnun. Hins vegar lesum við býsna oft fréttir um að einn og sami maður hafi verið tekinn ofurölvi undir stýri í tvígang sömu helgina, jafnvel sama kvöldið. Sá er oft með í höndunum eins til tveggja tonna morðvopn sem getur náð 200 kílómetra hraða.

Jafnvel þegar menn verða valdir að dauða fólks og örkumlum, ölvaðir eða dópaðir undir stýri er algengur dómur ökuleyfissvipting í fáein ár og skilorðsbundið fangelsi í nokkrar vikur eða mánuði. Menn sem eru alvarleg ógn við öryggi samborgaranna eru ekki teknir úr umferð.

Reyndar er vert að nefna að ekki eru allir ökuníðingar fullir eða undir áhrifum fíkniefna. Heilinn í þeim virkar samt eins og þeir hafi tekið eitthvað inn. Ekki sízt hjá einhverjum hópi ungra karlmanna er ofsaakstur nánast viðurkennd hegðun og þykir einhvers konar manndómsvígsla að vera tekinn af löggunni fyrir að stefna lífi og limum náungans í hættu.

Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir lögreglumönnum að akstur undir áhrifum fíkniefna færist í vöxt og sé að verða algengari en ölvunarakstur. Raunar er lítill munur á þessu tvennu, en þróunin er áhyggjuefni, rétt eins og vaxandi ofbeldi í undirheimunum. Löggjafinn og dómstólar ættu að bregðast við henni með því að sjá til þess að brjálæðingarnir á bílunum fái þunga dóma, ekki síður en brjálæðingarnir með byssurnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×