Fastir pennar

Heimabrúkskenningar um hrun

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir skrifar
Í marga mánuði hafa borist fréttir af síversnandi stöðu ríkja Evrópusambandsins. Ástandið hjá mörgum þeirra minnir ískyggilega á okkar eigin stöðu sumarið 2008, nokkrum mánuðum áður en íslensku bankarnir fóru í þrot. Bankar á meginlandi Evrópu eiga í miklum vandræðum með fjármögnun og fjölmörg ríki fá ekki lán nema á afarkjörum.

Í ljósi þess hversu mörg ríki standa nú illa er vert að íhuga gegndarlausar yfirlýsingar um að hugmyndafræði stjórnmálaflokka sé um að kenna hvernig fór á Íslandi. Formenn núverandi stjórnarflokka hafa útskýrt í upphrópunarstíl ástæður hrunsins og ítrekað vísað til stefnu þeirra stjórnmálaflokka sem áður stýrðu landi og þjóð.

Í lok árs 2008, þegar Ísland var eina landið sem hafði lent í verulegum vandræðum, hljómuðu þessar kenningar mögulega trúverðugar. Þremur árum seinna eru þær kjánalegar og þarfnast endurskoðunar. Ástæða þess að auðvelt er að afsanna kenningarnar er að fleiri sýni hafa litið dagsins ljós, svo notuð séu hugtök vísindamanna eins og jarðfræðinga.

Hver stjórnaði hvar?Um síðustu helgi beið Sósíalistaflokkur Zapatero afhroð í kosningum á Spáni. Sá flokkur er til vinstri og réð ríkjum frá 2004. Vinstrimönnum er kennt um afleita stöðu Spánverja sem standa frammi fyrir miklum efnahagsþrengingum og atvinnuleysi. Miðjuflokkur, með stuðning frá hægri og vinstri til skiptis, réð ríkjum á Írlandi í tugi ára þar til kreppan skall formlega á. Sú ríkisstjórn ákvað að ríkið skyldi ábyrgjast allar skuldir írskra banka en Írar máttu í framhaldinu leita sér erlendrar aðstoðar. Í Grikklandi hefur Papandreou, formaður Sósíalistaflokksins, nýlega sagt af sér sem forsætisráðherra vegna skuldastöðu gríska ríkisins. Hann varð ekki forsætisráðherra fyrr en 2009 en frá 2004 hafði hægri miðjuflokkur stýrt ríkisstjórninni. Grískir stjórnmálaflokkar hafa aldrei tekist á við gegndarlausa spillingu sem þar hefur ríkt. Í Portúgal hafa sósíalistar verið við völd í áratugi. Einungis nokkrir mánuðir eru frá því að Portúgalar fetuðu í fótspor Íra og Grikkja og leituðu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hægrimenn í Portúgal nota nú sömu rök og vinstrimenn á Íslandi, en með öfugum formerkjum. Ítalía, hagkerfi sem er of stórt til að bjarga og of stórt til að falla, stendur frammi fyrir skelfilegum niðurskurði og endurskipulagningu. Hægrimenn, undir forystu Berlusconis, hafa stjórnað Ítalíu í áratug og ekki tekist á við mikla spillingu í viðskiptalífi og stjórnmálum.

Sökudólgar til hægri?Það hljómar ekki gáfulega að útskýra hremmingar þessara landa með yfirlýsingum um hægri- eða vinstristefnu stjórnmálaflokka. Eina leiðin til að gera slíkt er að horfa einangrað á hvert land og láta eins og hin löndin séu ekki til. Það gera forystumenn ríkisstjórnar okkar við hvert tækifæri og telja vandræðin á Íslandi skýrast af hægri hugmyndafræði. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði fyrr á árinu að tími Samfylkingarinnar hefði komið þegar „óstjórn og sóun Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks undir gunnfána frjálshyggjunnar leið undir lok á Íslandi með skelfilegum afleiðingum". Á nýlegum landsfundi Samfylkingar sagði Jóhanna einnig að sömu flokkar væru ekki stjórntækir fyrr en þeir breyttu „um stefnu í þeim grundvallarmálum sem hruninu ollu". Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, var á svipuðum slóðum á landsfundi VG í haust og sagði VG hafa varað við „meðan íslensku þjóðarskútunni var siglt á fullri ferð á strandstað hægristefnunnar".

Þýskaland er landið sem á að bjarga öðrum evrulöndum úr skuldakreppunni. Í samhengi við upphrópanir Steingríms og Jóhönnu um að allt sé frjálshyggju að kenna mætti allt eins fullyrða, álíka gáfulega, að sterk staða Þýskalands sé tilkomin vegna þess að þar sé kona í forystu stjórnmálanna.

Ef ekki hægristefna, hvað þá?Einfaldar skýringar á okkar stöðu og annarra Evrópuríkja eru ekki til. Vitlausar viðskiptahugmyndir og hegðun banka á Íslandi, spár manna á Írlandi og Spáni um þróun fasteignaverðs og spilling í Grikklandi og á Ítalíu eru sennilegar skýringar. Þó er eitt sem öll þessi lönd áttu sameiginlegt. Í þeim öllum hefur þjónusta hins opinbera vaxið úr hófi fram. Í góðærinu sem á undan gekk reyndist auðvelt að fjármagna vöxtinn með sköttum og aukinni skuldsetningu. Nú þegar kreppir að reynist illmögulegt hvort heldur sem er að vaxa út úr vandanum eða draga nógu hratt saman útgjöld til að laga skuldastöðuna.

Verkefnið fram undan er hið sama hjá öllum þessum löndum og mun felast í niðurskurði, hagræðingu og áherslu á vöxt efnahagslífsins. Forgangsröðunin verður unnin í pólitísku samhengi einstakra landa en mun reynast afar erfið stjórnmálamönnum sem þurfa að sækjast eftir endurkjöri. Ríkisstjórnir sem þora að taka erfiðar ákvarðanir og leggja áherslu á uppbyggingu efnahagslífsins eru þær sem munu sjá hvað skjótastan bata. Hugsanlega skiptir þá máli hvort menn hugsa til hægri eða vinstri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×