Viðskipti innlent

Færa sig til Reykjanesbæjar

Stjáni Gunn og Gummi Sig
Stjáni Gunn og Gummi Sig
Veffyrirtækið Kosmos&Kaos opnaði nýjar höfuðstöðvar í Reykjanesbæ á föstudag. Reykjanesbær hefur hingað til ekki verið þekktur fyrir vef- eða hugbúnaðarfyrirtæki en stofnendur Kosmos&Kaos kunna vel við sig á nýjum stað og segja verkefnin hlaðast upp.

 

„Hugmyndin var að búa til skrifstofuhúsnæði sem hentaði vel fyrir skapandi hugsun. Og raunar líka til að fólk spyrji af hverju við erum í Reykjanesbæ,“ segir Kristján Gunnarsson, annar stofnenda Kosmos&Kaos, og bætir við: „Gummi Sig, samstarfsmaður minn, býr hér í Reykjanesbæ. Við vildum líka gera svolítið sérstakt vinnuumhverfi og þar sem leigan er ódýrari hér og handverksmenn til reiðu sem voru tilbúnir í þetta verkefni með okkur þá fannst okkur þetta smellpassa.“

 

Hönnun skrifstofunnar byggir á hugmynd sem hefur verið kölluð einn-sex og vísar til spýtna sem notaðar eru í mótatimbur. Kristján segir fyrirmyndina vera gistiheimili í Reykjanesbæ sem heitir 1x6. „Fyrst ætluðum við að gera einn vegg í þessum stíl og höfðum samband við þau á gistiheimilinu. Svo vatt þetta upp á sig þannig að öll skrifstofan er að lokum svona; allt úr endurunnum efnum nema lampar, ljós og stólar,“ segir Kristján. Þá er hugleiðsluherbergi á skrifstofunni en Kristján segir alla sem koma inn á hana fyllast af ró og hamingju.

 

Kosmos&Kaos hefur haft í nógu að snúast síðustu vikur og meðal annars hannað nýjar vefsíður fyrir Reykjanesbæ og Vodafone. „Við hófum störf í nóvember og vorum bara tveir en erum núna að ráða starfsmenn. Það er alveg ótrúlega mikið að gera,“ segir Kristján.- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×