Bakþankar

Fréttir úr sortanum

Bergsteinn Sigurðsson skrifar
Ógæfu Íslands verður allt að vopni, æpti ég upp yfir mig í gær þegar ég horfði á fréttir úr sortanum á Kirkjubæjarklaustri og nágrenni. „Fyrst hrunið með tilheyrandi kaupmáttarrýrnun, skattahækkunum og atgervisflótta.Höfum við ekki fengið nóg?"

Konan mín leit á mig. „Við? Bíddu, hefur þetta eldgos eitthvað bitnað beint á okkur, frekar en þorra íbúa á höfuðborgarsvæðinu sem fylgjast með úr öruggri fjarlægð?"



Ég reyndi að malda í móinn. „Ja, við þurfum nú að loka gluggunum hjá okkur, og það var aska á hnakknum á hjólinu mínu í morgun; svo er þunglyndislegt, grátt öskumistur yfir borginni og ég kemst ekki út að hlaupa í dag því heilbrigðisyfirvöld vara fólk að erfiða mikið utandyra."



„Eru þetta einu beinu áhrifin sem gosið hefur haft á þig?" spurði hún á móti. „Er búfénaðurinn þinn að drepast meðan þú ert að keppast við að koma honum í öruggt skjól?" „Nei," muldraði ég. „Er bleikjueldið þitt að fyllast af hræjum?" „Nei." „Sérðu handa þinna skil?" Ég leit í gaupnir mér og kinkaði kolli. „Nærðu andanum án erfiðleika?" Ég dæsti til samþykkis. „Hefðirðu hvort eð er farið út að hlaupa út í þessum kulda?" „Já," fullyrti ég með tóni sneyddum öllu því sem kalla mætti sannfæringu.



„Sumsé,"hélt hún áfram, „heildaráhrifin sem eldgosið í Grímsvötnum hefur haft á þig fram að þessu er að þú lokaðir nokkrum gluggum og straukst rykskán af reiðhjólahnakki." „Ekki gleyma þunglyndislegu öskumistri," bætti ég við og uppskar augnaráð með annars konar meðaumkun en þeirri sem ég var að fiska eftir. „Og finnst þér þetta sambærilegt við það sem fólkið fyrir austan fjall þarf að fást við?"



„Ógæfu Íslands verður allt að vopni," endurtók ég og steytti hnefa. „Skattar, kaupmáttur, fólksflótti, eldgos. Allt leggst á eitt. Geturðu ímyndað þér hvað við töpum mörgum gistinóttum." „Ert þú nú allt í einu orðinn einhver ferðaþjónustubóndi?" svaraði hún. „Það er nú bara ekkert svo fráleit hugmynd," fnæsti ég og gjóaði augunum á lopapeysuna mína á nálægu stólbaki og kjölinn á Njálu í bókahillunni.



„Þú áttar þig á því," hélt hún áfram, „að í stað þess að finna til hluttekningar með þeim sem glíma við öskuna ertu að búa til tengingu milli efnahagsmála og gossins til þess eins að fóðra eigin sjálfsvorkunn; þú barmar þér yfir óförum sem aðrir þurfa að glíma við." „Ógæfu Ísl…" reyndi ég að árétta í síðasta sinn en var orðinn einn í stofunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×