Viðskipti innlent

Síldin seinni á ferðinni en í fyrra

Mælingar Hafró sýna að síldin er seinna á ferðinni en undanfarin ár.fréttablaðið/gva
Mælingar Hafró sýna að síldin er seinna á ferðinni en undanfarin ár.fréttablaðið/gva vísir/gva
Minna af norsk-íslenskri síld er gengin inn á íslenskt hafsvæði en á sama tíma í fyrra. Líkleg skýring þessa er einfaldlega talin sú að síldin sé seinna á ferðinni en undanfarin ár.

 

Þetta er niðurstaða Hafrannsóknastofnunarinnar en rannsóknaskipið Árni Friðriksson er nýkomið úr 24 daga leiðangri við að kanna útbreiðslu og magn kolmunna og norsk-íslenskrar síldar fyrir vestan, sunnan og austan land. Leiðangurinn er hluti af sameiginlegri leit og bergmálsmælingum Íslendinga, Norðmanna, Færeyinga, Rússa og Evrópusambandsins á útbreiðslusvæði þessara stofna.

 

Alls mældust nú um 550 þúsund tonn norsk-íslenskrar síldar innan íslensku landhelginnar í samanburði við eina til 1,4 milljónir tonna árin þrjú á undan. Auk þess sem talið er að síldin sé seinna á ferðinni er horft til þess að elstu og stærstu síldinni, sem er að miklu leyti úr stórum árgöngum frá 1998 til 2000, fer fækkandi í stofninum. Þessi síld leitaði hingað undanfarin ár í fæðuleit og var að öllu jöfnu fremst í göngunum.

 

Alþjóðahafrannsóknarráðið metur hrygningarstofn norsk-íslenskrar síldar nú vera níu milljónir tonna og er aflamark Íslendinga rúm 143 þúsund tonn fyrir árið 2011. - shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×