Viðskipti innlent

Atvinnulausir fái desemberuppbót

Desemberuppbót atvinnulausra gæti orðið 63 þúsund krónur að hámarki samkvæmt frumvarpi Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra.
Fréttablaðið/GVA
Desemberuppbót atvinnulausra gæti orðið 63 þúsund krónur að hámarki samkvæmt frumvarpi Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra. Fréttablaðið/GVA
Atvinnuleysi mældist 8,1 prósent í apríl. Atvinnulausum fækkaði því um 0,5 prósentustig milli mánaða. Atvinnulausir voru að meðaltali 13.262 í mánuðinum.

Á höfuðborgarsvæðinu mældist atvinnuleysi 8,7 prósent en á landsbyggðinni var það 6,9 prósent. Meðal karla var atvinnuleysi 8,6 prósent en kvenna 7,4 prósent. Þá hefur 59 prósent atvinnulausra verið það í meira en sex mánuði.

 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum tölum frá Vinnumálastofnun sem lagðar voru fyrir í ríkisstjórn í gær en staðan á vinnumarkaði var til umræðu á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun.

 

Dregið hefur hægar úr atvinnuleysi hér á landi en spár gerðu ráð fyrir en undanfarna mánuði hefur ríkisstjórnin sett fram ýmis úrræði til að vinna gegn atvinnuleysinu.

 

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra mælti í gær fyrir frumvarpi um málefni atvinnulausra. Meðal þess sem þar kemur fram er að atvinnulausir fái greidda desemberuppbót sem gæti orðið allt að 63 þúsund krónur á þessu ári. Einnig er gert ráð fyrir ríkari upplýsingaskyldu atvinnulausra og stofnana til Vinnumálastofnunar með það að markmiði að gera stofnuninni betur kleift að hafa eftirlit með réttmæti umsókna um bætur auk fleiri atriða.

 

Þá mun atvinnuleitandi sem tekur þátt í starfstengdu vinnumarkaðsúrræði ekki skerða rétt sinn til atvinnuleysisbóta með þátttökunni, verði frumvarpið samþykkt. - mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×