Handbolti

Ingimundur: Norðmenn eru hrokagikkir

Henry Birgir Gunnarsson í Linköping skrifar
Það var ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með varnaruxanum Ingimundi Ingimundarsyni gegn Noregi í gær. Hann var í stanslausum slagsmálum við norsku leikmennina allan leikinn og virtist skemmta sér konunglega.

„Þetta var skemmtilegt og sérstaklega þar sem þetta eru Norðmenn. Ég er líklega vinsælasti maðurinn í Noregi núna - eða ekki," sagði Ingimundur og hló við. „Það mótiveraði mig aukalega að spila gegn Noregi. Þekki aðeins til þeirra og þeir eru hrokagikkir inn við beinið. Þetta var virkilega skemmtilegt og sérstaklega út af úrslitunum."

Enn eina ferðina fór Ingimundur á kostum í íslensku vörninni en það hefur verið hreinn unaður að fylgjast með frammistöðu hans og Sverre hér í Svíþjóð.

„Mér fannst vörnin vera þétt svona 80-90 prósent af leiktímanum. Við ætluðum ekki að breyta neinu í hálfleik og vissum að við myndum hrista þá af okkur á endanum," sagði Ingimundur en hann slóst mjög grimmilega við Myrhol og Löke. Voru ófáar skeytasendingarnar á milli þeirra allan leikinn.

„Ég tek ofan fyrir Löke. Hann er líklega eini karlmaðurinn í þessu landsliði. Er ekki vælandi og tuðandi allan helvítis leikinn. Hann spilar eins langt og hann kemst og virðir að andstæðingurinn gerir það líka. Það er meira en margir aðrir í hans liði."

Þessi Noregsleikur gleymist seint og það er ótrúlegt að fylgjast með þessu stórkostlega íslenska liði þegar það dettur í gírinn eins og í gær.

„Þetta var sigur liðsheildarinnar og gaman að sjá Bjögga í markinu. Norðmennirnir urðu bara hræddir við hann. Hornamaðurinn þorði ekki einu sinni að skjóta á Bjögga, setti boltann frekar í markstangirnar. Hann varði ótrúlega bolta. Þetta var virkilega sætt. Það er ekki hægt að neita því."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×