Handbolti

Onesta: Hugsuðum einungis um að vinna

Smári Jökull Jónsson í Jönköping skrifar
Claude Onesta lætur heyra í sér á hliðarlínunni
Claude Onesta lætur heyra í sér á hliðarlínunni Mynd / AFP

Claude Onesta, þjálfari Frakka, var sáttur eftir nokkuð öruggan sigur franska liðsins á því íslenska í Jönköping í kvöld. Með sigrinum tryggðu Frakkar sér efsta sæti milliriðilsins og munu mæta Svíum í undanúrslitum á föstudag. Hann blés á allt tal um að Frakkar hefðu hugsað um að þeir gætu valið sér mótherja í undanúrslitum, en um það hafði verið rætt þar sem leikur Dana og Svía lauk háfltíma áður en leik Frakka og Íslendinga lauk.

"Þetta var mjög áhugaverður leikur í dag gegn Íslendingum. Það eina sem við hugsðum um að var að vinna og það tókst. Íslenska liðið er með mikið af góðum leikmönnum og því urðum við að spila virkilega vel í dag til að fara með sigur af hólmi. Þetta var akkúrat leikurinn sem ég vildi fá áður en við færum í undanúrslitin, svo við gætum haldið áfram að bæta og þróa okkar leik," sagði Onesta á blaðamannafundi eftir leikinn.

Eins og áður segir munu Frakkar mæta Svíum í undanúrslitum en leikurinn verður í Malmö á föstudaginn. Onesta sagðist búast við mjög erfiðum leik.

"Það er ekkert lið sem kemst í undanúrslit heimsmeistaramóts án þess að vera virkilega gott. Svíar eru með ungt og hæfileikaríkt lið og spila á heimavelli. Það á eftir að hjálpa þeim mikið og leikurinn gegn þeim verður mjög erfiður," sagði Onesta að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×