Handbolti

Spánverjar fengu brons á HM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Spánverjar fagna sigrinum í dag.
Spánverjar fagna sigrinum í dag. Nordic Photos / AFP

Spánn vann í dag til bronsverðlauna á HM í handbolta eftir sigur á Svíum í leik um þriðja sætið, 24-23.

Leikurinn var æsispennandi eins og tölurnar bera með sér. Staðan í hálfleik var 11-11 en Spánverjar náðu að minnka muninn með glæsilegu marki Iker Romero á lokasekúndu fyrri hálfleiksins.

Svíar byrjuðu betur í seinni hálfleik og náðu þriggja marka forystu, 16-13. En þá kom slæmur leikkafli hjá sænska liðinu auk þess sem að Arpad Sterbik varði vel í spænska markinu. Spánverjar skoruðu sex mörk í röð og tóku völdin í leiknum.

Alberto Entrerrios skoraði 24. mark Spánar í leiknum þegar rúmar tvær mínútur voru til leiksloka.

Jonas Larholm náði að minnka muninn þegar um 40 sekúndur voru eftir en nær komust Svíarnir ekki. Spánverjar tóku leikhlé og náðu að láta leiktímann renna út í síðustu sókn leiksins.

Johan Sjöstrand átti stórleik í marki Svía, þá sérstklega í fyrri hálfleik, en það dugði ekki til. Alls varði hann sautján skot í leiknum. Sterbik var einnig öflugur eins og hann hefur verið allt mótið og varði alls sextán skot. Hann átti stóran þátt í sigri Spánar í dag.

Vonbrigði Svía eru mikil en þeir geta huggað sér við þann frábæra árangur að hafa komist í undanúrslit á þessu sterka móti.

Jonas Källman var markahæstur í liði Svía með sex mörk og Jonas Larholm kom næstur með fimm.

Hjá Spánverjum voru Eduardo Gurbindo og Julen Aguinagalde með fjögur mörk hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×