Handbolti

Danir komnir í fyrsta úrslitaleikinn sinn á HM í 44 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Danir hafa unnið alla leiki sína á HM til þessa.
Danir hafa unnið alla leiki sína á HM til þessa. Mynd/AFP

Danir unnu níunda leikinn sinn í röð á HM í Svíþjóð og tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum á móti Frökkum með fjögurra marka sigri á Spánverjum í kvöld, 28-24.

Danir, sem urðu Evrópumeistarar 2008, höfðu aðeins einu sinni áður komist í úrslitaleikinn á HM og það var á HM í Svíþjóð árið 1967.

Danir voru með frumkvæðið í upphafi leiks skoruðu fyrsta markið og komust síðan í 4-2 og 6-4. Spánverjar náðu að jafna metin í 6-6 þegar tæpar 12 mínútur voru liðnar af leiknum.

Danir náðu þá frábærum þriggja mínútna kafla og náðu fjögurra marka forustu eftir að hafa skorað fjögur mörk í röð. Danir voru því 10-6 yfir í leiknum þegar rúmar 15 mínútur voru liðnar af leiknum.

Spánverar voru fljótir að svara því staðan var orðin jöfn, 10-10, aðeins sjö mínútum seinna eftir fjögur spænsk mörk í röð.

Danir voru undan að skora fram að hálfleik en það var jafnt á öllum tölum og staðan var á endanum 12-12 í hálfleik.

Danir byrjuðu seinni hálfeik frábærlega, skoruðu þrjú fyrstu mörkin og voru yfir í 15-12 og 17-13. Spánverjar náðu þá aftur að minnka muninn niður í eitt mark en Danir sýndu þá styrk sinn og kláruðu leikinn með sannfærandi hætti.

Danir mæta Frökkum í úrslitaleiknum á sunnudaginn en bæði lið hafa enn ekki tapað á mótinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×