Handbolti

Ungverjar tryggðu sér síðasta sætið í forkeppni ÓL

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Ungverjar unnu þriggja marka sigur á Pólverjum, 31-28, í leiknum um sjöunda sætið á HM í handbolta í Svíþjóð. Ungverjar tryggðu sér þar með sæti í forkeppni Ólympíuleikanna á næsta ári en Pólverjar sitja eftir með sárt ennið.

Ungverjar byrjuðu mótið á því að steinliggja fyrir Íslendingum en komu sterkir til baka og enda að lokum í sjöunda sæti eftir sigra á Þjóðverjum og Pólverjum í þremur síðustu leikjum sínum. Ungverjar enduðu í sjötta sæti á HM í Króatíu fyrir tveimur árum.

Ungverjar byrjuðu vel og komust í 3-0 eftir fjórar mínútur en það tók Pólverja aðeins 92 sekúndur að jafna í 3-3 eftir að þeir brutu loksins ísinn eftir 5 mínútur og 42 sekúndur.

Pólverjar komust síðan í 5-4, voru búnir að ná tveggja marka forskoti, 7-5, eftir þrettán mínútna leik og fjögurra marka forskoti, 12-8, eftir 20 mínútur.  

Ungverjar voru ekki á því að gefa sig, skoruðu sex mörk í röð á sjö mínútna kafla og breyttu stöðunni úr 10-14 í 16-14 sem var staðan í hálfleik.

Ungverjar létu ekki þar við standa heldur skoruðu þrjú fyrstu mörk seinni hálfeiksins og voru þá komnir með 19-14 forskot og búnir að skora níu mörk í röð.

Pólverjar skoruðu loksins mark þegar þeir minnkuðu muninn í 19-15 en þeir höfðu þá ekki náð að skora í tæpar 14 mínútur.

Ungverjar gáfu ekkert eftir, náðu mest fimm marka forskoti og unnu að lokum með þriggja marka mun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×