Handbolti

Frakkar komnir í úrslitaleikinn á HM - unnu Svía 29-26

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frakkar eru komnir skrefi nær því að verja heimsmeistaratitilinn sinn eftir þriggja marka sigur á Svíum, 29-26, í fyrri undanúrslitaleiknum á HM í handbolta í Svíþjóð. Frakkar voru með öruggt forskot allan leikinn en Svíar náðu reyndar að minnka muninn í tvö mörk á lokamínútunum.

Frakkar eru því að spila úrslitaleik á fjórða stórmótinu í röð en þeir hafa unnið gullið á hinum þremur, EM 2010 í Austurríki, Hm 2009 í Króatíu og Ólympíuleikunum í Peking 2008.

Frakkar hafa fjórum sinnum áður leikið til úrslita á heimsmeistaramóti en þeir unnu titilinn 1995, 2001 og 2009 en fengu silfur árið 1993.

Svíar tóku frumkvæðið í upphafi og komust í 1-0, 2-1 og svo 4-2 en Frakkar skoruðu næstu fjögur mörk og komust yfir í 6-4.

Fjögur af fyrstu sex mörkum Frakka komu úr hraðaupphlaupum og Staffan Olson ákvað að taka leikhlé eftir rúmar þrettán mínútur.

Það gekk hinsvegar lítið hjá Svíum að koma boltanum framhjá Thierry Omeyer í markinu og Frakkar komust í 8-5.

Svíar nýttu sér vel að Frakkar misstu í tvígang mann af velli og tókst að minnka muninn í eitt mark, 11-10 þegar fimm mínútur voru til hálfleiks.

Frakkar náðu aftur að bæta í, voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 15-12, og náðu svo fimm marka forskoti, 17-12, eftir að hafa skorað tvö fyrstu mörk seinni hálfleiksins.

Frakkar héldu áfram sínu skriði og voru komnir með sjö marka forskot, 24-17, þegar aðeins sextán mínútur voru eftir af leiknum.

Svíar skoruðu þá þrjú mörk í röð, minnkuðu muninn í 24-20 og Claude Onesta, þjálfari Frakka, varð að taka leikhlé.

Franska liðið skoraði næsta mark en svo náðu Svíar að skora aftir þrjú mörk í röð og minnka muninn í tvö mörk, 25-23, þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir. Við tóku spennandi lokamínútur þar sem Frakkar náðu að tryggja sér sigurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×